Fótbolti

Pelé selur heimsmeistarabikarinn og 2.000 aðra minjagripi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pelé selur ekki þennan bikar heldur eftirlíkingu af gamla Jules Rimet-bikarnum.
Pelé selur ekki þennan bikar heldur eftirlíkingu af gamla Jules Rimet-bikarnum. mynd/julien
Brasilíska fótboltagoðsögnin Pelé ætlar að selja nær alla fótboltaminjagripi sem hann á, þar á meðal eftirlíkingu af upprunalega heimsmeistarabikarnum.

Uppboðið fer fram í London í næstu viku en þar verða ríflega 2.000 gripir í boði, þar á meðal heimsmeistarabikarinn og hringurinn sem hann fékk fyrir að vinna bandarísku atvinnumannadeildina í fótbolta árið 1977.

Þetta verður allt á uppboði.mynd/julien
Eftirlíkingin af Jules Rimet-bikarnum, sem Pelé lyfti þrisvar sinnum sem leikmaður Brasilíu, er verðmætastur af öllu því sem boðið verður upp. Búist er við að bikarinn verði seldur á 50-75 milljónir króna.

Pelé ætlar að gefa hluta ágóðans til Pequeno Principe sem er stærsti barnaspítali Brasilíu. Martin Nolan, maðurinn sem sér um uppboðið fyrir Julien-uppboðshúsið, segir að þetta gæti orðið stærsta uppboð á íþróttaminjagripum frá upphafi.

Pelé er að margra mati besti fótboltamaður sem uppi hefur verið en þessi 75 ára gamli Brasilíumaður varð heimsmeistari í þrígang; fyrst 1958 í Svíþjóð, svo 1962 í Síle og 1970 í Mexíkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×