Fótbolti

Mexíkó skoraði tvö mörk í lokin og vann Úrúgvæ | Sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mexíkó byrjar Ameríkukeppnina í fótbolta vel en lið Mexíkó vann 3-1 sigur á Úrúgvæ í fyrsta leik riðilsins í nótt. Venesúela vann 1-0 sigur á tíu mönnum Jamaíka í hinum leik riðilsins.

Luis Suarez gat ekki spilað með Úrúgvæ vegna meiðsla en hann er enn að ná sér eftir meiðsli sem hann varð fyrir í leik með Barcelona.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Úrúgvæmenn sem þurftu fyrst að hlusta á þjóðsöng Síle í stað síns þjóðsöngs fyrir leikinn og svo varð Alvaro Pereira fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir aðeins fjögurra mínútna leik.

Ekki batnaði ástandið þegar Úrúgvæmaðurinn Matias Vecino fékk sitt annað gula spjald á 44. mínútu. Úrúgvæ fór líka illa með tvö mjög góð færi.

Andres Guardado hjá Mexíkó fékk sitt annað gula spjald fyrir brot á Carlos Sanchez á 74. mínútu. Carlos Sanchez tók aukaspyrnuna og gaf fyrir á Diego Godin sem jafnaði leikinn með skallamarki.

Mexíkóbúar tryggðu sér hinsvegar sigurinn með tveimur mörkum á síðustu fimm mínútum leiksins. Það fyrra skoraði fyrirliðinn Rafael Marquez eftir hornspyrnu og það síðara gerði Héctor Herrera með skalla í uppbótartíma eftir skyndisókn og sendingu Diego Perez.

Venesúela vann 1-0 sigur á Jamaíka þar sem Josef Martinez skoraði sigurmarkið strax á 15. mínútu leiksins. Venesúela lék síðan manni fleiri síðustu 67 mínúturnar eftir að Rodolph Austin fékk rautt spjald á 23. mínútu.

Winfried Schaefer, þjálfari Jamaíka, var einnig rekinn upp í stúku fyrir mótmæli í seinni hálfleiknum.

Schaefer geymdi Stjörnumanninn Duwayne Kerr á bekknum en í stað hans stóð Andre Blake í marki Jamaíka í þessum leik. Blake átti mjög góðan leik og heldur örugglega sæti sínu þegar Jamaíka mætir toppliði Mexíkó í næsta leik.

Það er hægt að sjá mörkin úr leik Mexíkó og Úrúgvæ í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×