Fótbolti

Byrjunarliðið á móti Japan: Sara Björk spilar sinn 100. leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir kemst í 100 leikja klúbbinn í dag.
Sara Björk Gunnarsdóttir kemst í 100 leikja klúbbinn í dag. vísir/stefán
Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur tilkynnt byrjunarliðið sem mætir Japan í öðrum leik liðsins á Algarve-mótinu í fótbolta.

Sara Björk Gunnarsdóttir leikur sinn 100. landsleik í dag en hún er sjöundi leikmaður kvennalandsliðsins í 100 leikja klúbbinn.

Freyr spilar 3-4-3 í dag en eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun gæti þetta verið lokapróf stelpnanna með þriggja manna vörn. Töluvert reyndari leikmenn spila leikinn í dag en það fyrsta sem endaði með 1-1 jafntefli á móti Noregi.

Guðbjörg Gunnarsdóttir kemur í markið og þær Anna Björk Kristjánsdóttir og Sif Atladóttir eru með Glódísi í þriggja manna miðvarðalínu.

Hallbera og Rakel Hönnudóttir eru vængbakverðir og þær Sara Björk og Málfríður Erna Sigurðardóttir á miðjunni. Margrét Lára Viðarsdóttir byrjar frammi.

Liðin hafa einu sinni áður mæst en það var á Algarve fyrir tveimur árum. Þá vann Japan, 2-0. Leikurinn hefst klukkan 14.45 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Byrjunarliðið gegn Japan:

Mark: Guðbjörg Gunnarsdóttir

Vörn: Anna Björk Kristjánsdóttir, Sif Atladóttir og Glódís Perla Viggósdóttir

Miðja: Hallbera Guðný Gísladóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir og Rakel Hönnudóttir

Sókn: Fanndís Friðriksdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir og Elín Metta Jensen




Fleiri fréttir

Sjá meira


×