Rúnar Alex Rúnarsson stóð á milli stanganna hjá Dijon sem vann óvæntan 1-3 útisigur á Lyon í frönsku úrvalsdeildinni í dag. Þetta var fyrsti deildarsigur Dijon síðan liðið vann Monaco, 2-0, á heimavelli 26. janúar.
Leikurinn byrjaði illa fyrir Rúnar Alex og félaga því strax á upphafsmínútunni kom Martin Terrier Lyon yfir.
Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Wesley Said og hann skoraði svo sitt annað mark á 7. mínútu. Staðan var 1-2 í hálfleik, Dijon í vil.
Á 65. mínútu varð Brasilíumaðurinn Rafael, fyrrverandi leikmaður Manchester United, fyrir því óláni að skora sjálfsmark og kom Dijon í 1-3 sem urðu lokatölur leiksins.
Rúnar Alex fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína. Hann hefur leikið síðustu leiki Dijon eftir að hafa misst sæti sitt í liðinu um tíma.
Þrátt fyrir sigurinn er Dijon enn í vondum málum. Liðið er í 18. sæti deildarinnar, sex stigum frá öruggu sæti.

