Viðskipti erlent

Hagnaður JP Morgan yfir væntingum

Einn af yfirmönnum JP Morgan, en bankinn skilaði betri afkomu á þriðja ársfjórðungi en greinendur höfðu gert ráð fyrir.
Einn af yfirmönnum JP Morgan, en bankinn skilaði betri afkomu á þriðja ársfjórðungi en greinendur höfðu gert ráð fyrir. Mynd/AFP

Hagnaður bandaríska bankans JP Morgan nam 3,4 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 207 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Þetta er 100 milljónum dala meira en á sama tíma í fyrra. Fréttirnar þykja góðar í ljósi þess að bankinn afskrifaði 1,6 milljarða dala lán vegna óróleika á bandarískum fasteignamarkaði.

Hagnaðurinn nam 97 sentum á hlut á tímabilinu samanborið við 92 sent á hlut í fyrra. Þetta er talsvert yfir væntingum markaðsaðila, sem höfðu reiknað með því að hagnaðurinn myndi nema 90 sentum á hlut, að sögn fréttastofu Reuters.

Þetta er sömuleiðis talsvert önnur afkoma en aðrir bandarískir bankar hafa sýnt fram til þessa á þriðja ársfjórðungi en óróleiki á fjármálamörkuðum, sem rót á í vandræðum á bandarískum fasteignalánamarkaði, setti skarð í afkomu þeirra.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×