Pétur Pétursson, þjálfari knattspyrnuliðs Vals, var eðlilega mjög sáttur með 3-0 sigur liðsins á HJK Helsinki í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í dag. Sigurinn einkar öruggur eins og lokatölur gefa til kynna og segja má að upplegg Vals hafi gengið nær fullkomlega upp í dag.
Valur hóf leikinn gríðarlega vel, pressaði gestina frá Finnlandi út um allan völl og uppskar eftir því. Staðan 3-0 eftir rúmar 35 mínútur og segja má að einvíginu hafi verið lokið þegar síðari hálfleikur hófst.
„Mér fannst við spila þetta vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Kláruðum í rauninni leikinn í fyrri hálfleik. Fannst við standa okkur vel,“ sagði Pétur að leik loknum.
„Eins og ég sagði fyrir leik þá erum við nánast búin að horfa á finnsku deildina frá því hún byrjaði svo við vissum nákvæmlega hvað þær eru að gera. Að sama skapi er þetta ekki auðvelt lið að vinna og mér fannst stelpurnar gera það mjög vel,“ sagði þjálfari Vals aðspurður hvort upplegg Vals hefði gengið nær fullkomlega upp.
Að lokum var Pétur spurður út í hvernig það væri að vera spila mikilvæga leiki með íslenskt félagslið þegar komið er fram í nóvember.
„Þetta er frekar sérstakt. Við erum búin að vera meira og minna í fótbolta síðan í nóvember í fyrra, það er ár síðan. Að sama skapi þá erum við í Meistaradeildinni og það er spennandi að spila í Meistaradeildinni. Það er spennandi að ná árangri, það er það sem við viljum gera og það er það sem heldur okkur gangandi núna.“