Fótbolti

Dómari féll á kné eftir að hafa gert mis­tök

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Augnablikið þegar dómarinn áttaði sig á að hann hefði gert mistök.
Augnablikið þegar dómarinn áttaði sig á að hann hefði gert mistök. Skjáskot

Kostulegt atvik átti sér stað í leik Vendsyssel og Fredericia í dönsku B-deildinni í knattspyrnu um helgina. Dómari leiksins áttaði sig þá á mistökum sem hann gerði og féll á kné sér áður en hann baðst afsökunar.

Rétt rúmur hálftími var liðinn af leiknum og staðan 1-0 Vendsyssel í vil þegar Fredericia slapp í gegn. Dómari leiksins flautaði hins vegar á brot sem hafði átt sér stað örskömmu áður frekar en að beita hagnaði þar sem það virtist sem sóknin væri runnin út í sandinn.

Er hann sá að leikmaður Fredericia var sloppinn í gegn féll hann á kné og grúfði andlitið í hendur sínar áður en hann stóð upp og baðst innilegrar afsökunar. Gestirnir jöfnuðu metin hins vegar skömmu síðar og 1-1 reyndust lokatölur leiksins.

Hvort það hefði skipt sköpum fyrir Fredericia að skora nokkrum mínútum fyrr er alls óvíst en dómarinn er eflaust enn svekktur að hafa ekki beitt hagnaði í atvikinu sem sjá má hér að neðan.

Fredericia er í 2. sæti B-deildarinnar með 14 stig að loknum sex leikjum á meðan Vendsyssel er í 8. sæti með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×