Fleiri fréttir

Nú eru þáttaskil - ASÍ lætur sverfa til stáls

"Samtök atvinnulífsins hafa haft landssamböndin innan ASÍ að ginningarfíflum í næstum hálft ár þar sem grímulaus hagsmunagæsla fyrir LÍÚ vegur þyngra en hagsmunir almenns launafólks. Nú verður látið sverfa til stáls í krafti samstöðunnar sem á tæpum hundrað árum hefur fært vinnandi fólki á Íslandi ófáa sigrana. Nú þarf að brjóta gíslatöku SA á bak aftur." Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Alþýðusamband Íslands hefur sent frá sér vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í kjaraviðræðum. Þar segir að yfirlýsing Samtaka atvinnulýfsins frá því fyrr í dag þess efnis að samtökin vilji gera 3 ára kjarasamning komi of seint. "Það sem var í umræðunni fyrir páska kemur ekki lengur til greina. SA hafnaði þeim 3 ára kjarasamningi sem þá lá á borðinu og gerði síðan kjarasamning nokkrum dögum síðar sem fól í sér mun meiri hækkanir en menn ræddu fyrir páska. Eðlilegt er að aðildarsamtök innan ASÍ vilji sækja þær hækkanir. SA hefur í þessum kjaraviðræðum hagað sér eins og spilltur krakki. Allt skildi vera á þeirra forsendum. Nú vilja þeir snúa tímahjólinu aftur til 15. apríl eins og ekkert hafi gerst. Svona hegðun hefur nákvæmlega engan trúverðugleika. Nú eru þáttaskil. Aðildarsamtök ASÍ eru ekki til viðræðu um lengri samning en til eins árs,“ segir í yfirlýsingu ASÍ. "Nú er svo komið að ekki verður lengur við makalausa framkomu SA búið. Hvert landssambandið innan ASÍ á fætur öðru hefur vísað kjaradeilunni við atvinnurekendur til ríkissáttasemjara og í flestum þeirra er farið að huga að verkfallsaðgerðum. Verkfallsvopnið er öflugt og notast aðeins í brýnni neyð. Nú er sú stund runnin upp að verkalýðshreyfingin sér ekki annan kost en að beita þessu vopni sínu.“

Samtök ferðaþjónustunnar vilja ódýrara bensín

Samtök ferðaþjónustunnar taka undir áskorun FÍB, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands til stjórnvalda um að lækka álögur hins opinbera á eldsneyti. Vegagerðin spáir verulegum samdrætti í umferð framundan og er ljóst að það mun koma fram í fækkun ferðamanna úti á landsbyggðinni, sérstaklega í þeim byggðum sem langt er að sækja. „Ferðaþjónustan er ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins í bæði gjaldeyris- og atvinnusköpun og getur það því haft alvarlegar afleiðingar ef samdráttur í ferðum um landið verður mikill,“ segir í tilkynningu frá Samtökunum. Eldsneytisverð hefur hækkað gríðarlega á undanförnum misserum og er staðan nú þannig að aðeins er ekið á Vík í Mýrdal fyrir það eldsneyti sem fór í að aka á Höfn í Hornafirði árið 2007.

Uppselt á Maxímús í Hörpu

3000 miðar á tvenna tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og tónelsku músarinnar Maxímús Músikús í Hörpu seldust upp á nokkrum klukkustundum. Tónleikarnir verða á sérstökum barnadegi sem haldin verður í ráðstefnu- og tónlistarhúsinu þann 15. maí. Barnadagurinn er hluti af opnunarhátíð Hörpu og verða fjöldi annarra viðburða í húsinu þennan dag fyrir unga tónlistaráhugamenn og fjölskyldur þeirra þar sem ekki þarf aðgöngumiða til að njóta.

Klikkað kaffi á geðveiku kaffihúsi

„Á Geðveiku kaffihúsi er kaffið klikkað og baksturinn brjálæðislega góður." Þannig hljómar lýsing á kaffihúsi sem Hugarafl verður með opið á morgun, sem lið í hátíðinni List án landamæra. Opnunarhátíðin verður í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag klukkan fimm þar sem fjöldi listafólks sýnir verk sín. Þá mun Táknmálskórinn „syngja" fyrir gesti. Geðveika kaffihúsið verður opið á morgun milli klukkan eitt og fimm síðdegis, og verður í Hinu húsinu Pósthússtræti. Dagskrá hátíðarinnar er veigamikil og má lesa dagskrárbæking með því að smella hér. Samstarfsaðilar í stjórn Listar án landamæra eru: Fjölmennt - fullorðinsfræðsla fatlaðra, Átak - félag fólks með þroskahömlun, Hitt húsið, Landssamtökin Þroskahjálp, Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum, Öryrkjabandalag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna. Frítt er á alla viðburði hátíðarinnar og eru allir velkomnir.

Eftirlýstur af Interpol - gaf sig fram og kominn í Hegningarhúsið

Chigozie Óskar Anoruo, íslenskur ríkisborgari sem var eftirlýstur af Interpol, hefur gefið sig fram við fangelsismálayfirvöld og hóf afplánun í gær. Óskar er vistaður í Hegningarhúsinu, eins og venjan um karlkyns fanga í upphafi afplánunar. Ástæða þess að hann var eftirlýstur er sú að íslensk fangelsismálayfirvöld höfðu upplýsingar um að Óskar væri erlendis. Hann var hins vegar kominn aftur til landsins og gaf sig fram eftir að lýst var eftir honum. Óskar hlaup tveggja ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2009 fyrir að stinga mann í hálsinn með hnífi í Hafnarstræti í Reykjavík. Hending var talin að ekki hlaust af alvarlegt líkamstjón eða jafnvel dauði, að því er fram kom í læknisvottorðum, sem lögð voru fyrir dóminn. Þetta var í fjórða sinn sem Óskar var dæmdur fyrir líkamsárás. Vegna plássleysis í íslenskum fangelsum gat Óskar ekki hafið afplánun fyrr. "Í venjulegu árferði með hefðbundna nýtingu hefði hann verið boðaður inn fyrr," segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar. Fangelsismálastofnun fékk þær upplýsingar hafa fengist frá íslenskum yfirvöldum að Óskari hefði farið úr landi. "Við óskuðum þá eftir að hann yrði eftirlýstur," segir hann. Aðspurður segir Páll að Óskar hafi ekki verið metinn hættulegur en eftir honum lýst þegar hann fannst ekki eftir að boða átti hann til afplánunar.

Skýrist á mánudag hvenær Landeyjahöfn opnar

Enn liggur ekki ljóst fyrir hvenær Landeyjahöfn verður opnuð. Á mánudag mun þó vonandi skýrast hvenær það verður. Vonast hafði verið til að hægt yrði að opna höfnina þann 1. maí en það gengur ekki upp. Samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun verður dýpkunarskipið Skandia við störf við Landeyjahöfn í dag og jafnvel fram í miðja næstu viku. Í ljósi þessa mun Herjólfur sigla til og frá Þorlákshöfn þangað til annað verður gefið út.

Óku til hallarinnar í opnum hestvagni

Um tveir milljarðar manna um allan heim fylgdust með þegar Vilhjálmur prins og Katrín prinsessa voru gefin saman í Westminster Abbey í dag. Fyrir utan að vera orðin prinsessa sæmdi drottningin Katrínu titlinum Hertogaynjan af Cambridge. Og fyrir þá sem tóku þátt í að veðja um litinn á hatti Elísabetar drottningar má geta þess að hann var gulur, eins og raunar flestir höfðu veðjað á. Sömuleiðis var hún í gulri dragt. Eins og nærri má geta var athöfnin afskaplega formleg og virðuleg en brúðhjónin skiptust þó á mörgum brosum. Að henni lokinni óku brúðhjónin í opnum hestvagni frá Westminster Abbey til Buckingham hallar. Á leiðinni voru þau hyllt af að minnstakosti einni milljón Breta og ferðamanna sem vörðuðu veginn. Og nú verður hátt í höllinni því þar verða veislur og móttökur langt fram á kvöld. Þegar veisluhöldum lýkur munu drottningin og Filipus hertogi yfirgefa Buckinghamhöll á eftirláta hana brúðhjónunum á brúðkaupsnóttina. Brúðarkjóll Katrínar prinsessu og blómvöndur hennar var nánast eins ólíkur skrúða Díönu prinsessu og hugsast getur. Kjóllinn var fílabeinshvítur, skreyttur blúndum og virtist léttur. Slóðinn var stuttur. Brúðarvöndurinn var hvítur og grænn og mjög nettur. Hún var ekki með hálsfesti en hinsvegar demantseyrnalokka. Katrín bar litla kórónu sem drottningin lánaði henni, en kórónan er frá árinu 1936 og hefur verið kölluð "geislabaugurinn" frá Cartier. Vilhjálmur prins var í einkennisbúningi.

Úthlutar styrkjum til atvinnumála kvenna

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra úthlutar í dag styrkjum til atvinnumála kvenna. Alls fá 42 konur styrki að þessu sinni til fjölbreyttra verkefna en til úthlutunar eru 30 milljónir króna. Styrkirnir eru ætlaðir konum sem vinna að góðum viðskiptahugmyndum og verkefnum sem fela í sér nýnæmi eða nýsköpun. Árið 1991 var í fyrsta sinn úthlutað sérstökum styrkjum til atvinnumála kvenna að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur þáverandi félagsmálaráðherra.

Tölvum og flatskjám stolið úr Búðinni í nótt

Brotist var inn í húsakynni vefverslunarinnar Búðarinnar í nótt og þaðan meðal annars stolið tölvum, flatskjám og myndavélum. Ránið hefur verið verið kært til lögreglu en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins. Líklegt er talið að reynt verði að selja þýfið á svörtum markaði en vakin er athygli á því að lögregla hefur heimild til að gera þýfi upptækt hjá kaupendum þess, og skiptir þá engu hvort fólk segist ekki hafa vitað af því að um þýfi var að ræða við kaupin. Meðal þess sem var stolið í Búðinni eru 14 tommu Asus fartölvur, 32 tommu Sony flatskjár, Olymps og Canon Ixus myndavélar, flakkarar og minnislyklar. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ránið eru hvattir til að hafa samband við lögreglu.

SA: Vilja semja til þriggja ára

Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins ætlar að leita eftir því við samningsaðila að ljúka gerð kjarasamnings. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem samtökin héldu nú rétt fyrir ellefu.

SA boðar til blaðamannafundar

Framkvæmdastjórn Samtaka Atvinnulífsins hafa boðað til blaðamannafundar í Borgartúni klukkan kortér fyrir ellefu í dag. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í samtali við fréttastofu í morgun að í útspili ríkisstjórnarinnar til samtakanna í gærkvöldi, hafi vissulega verið komið til móts við kröfur þeirra.

Katrín í hvítum kjól frá hönnuði Alexander McQueen

Brúðarkjóll Katrínar Middleton er fílabeinshvítur og blúndum skreyttur. Brúðurin var sérlega glæsileg þegar hún gekk inn kirkjugólfið í kjól sem hönnuður Alexander McQueen hannaði, Sarah Burton. Sögusagnir höfðu verið uppi fyrir brúðkaupið um að Burton hannaði kjólinn en hún vísaði öllu slíku á bug enda mátti ekkert láta uppi um kjólinn fyrr en í athöfninni sjálfri.

Prinsessur og prinsar í leikskólanum Arnarsmára

Litlir prinsar og prinsessur mættu prúðbúin á leikskólann Arnarsmára í Kópavoginum í morgun. Starfsfólk leikskólans tók á móti þeim á konunglegan máta, og voru konurnar með glæsilega hatta að sið breskra hefðarfrúa.

Auðveld skotmörk í opnum hestvagni

Það verður líklega um korter yfir ellefu að íslenskum tíma sem taugar öryggissveita í Lundúnum þenjast til hins ítrasta. Þá lýkur kirkjuathöfninni í brúðkaupi þeirra Vilhjálms og Kate og við tekur ferð í opnum hestvagni frá Westminster Abbey til Buckingham hallar.

Tíu prósent leikskólabarna með erlent móðurmál

Tæp tíu prósent leikskólabarna hafa annað tungumál en íslensku að móðurmáli, og hafa aldrei verið fleiri. Í desember 2010 voru 1.815 börn með erlent tungumál að móðurmáli, eða 9,6% leikskólabarna.. Þessum börnum fjölgaði um 201, eða12,5%, frá desember 2009. Af þeim hafa 520 börn pólsku sem móðurmál og er það algengasta erlenda tungumálið eins og undanfarin ár. Pólskumælandi leikskólabörnum fjölgar um 97 frá fyrra ári. Þá fjölgar leikskólabörnum sem hafa lithásku að móðurmáli um 25 og börnum sem hafa tælensku að móðurmáli fjölgar um 19. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Börnum með erlent ríkisfang fjölgar Í desember 2010 voru 711 börn í leikskólum landsins með erlent ríkisfang og hafði fjölgað um 82 börn frá fyrra ári, eða 13,0%. Þetta rímar við fjölgun barna í leikskólum sem hafa erlent móðurmál. Fjölgunin er tilkomin vegna fjölgunar barna frá Austur-Evrópu, 57, og frá Eystrasaltslöndunum, 26. Aldrei fleiri börn á leikskóla á Íslandi Í desember 2010 sótti 18.961 barn leikskóla á Íslandi og hafa þau aldrei verið fleiri. Leikskólabörnum hefur fjölgað um 245 frá desember 2009, eða um 1,3%. Þrátt fyrir þessa fjölgun hefur hlutfall barna á aldrinum 1-5 ára sem sækja leikskóla lækkað lítillega, úr 83% fyrir ári síðan í 82% í desember 2010. Þá má greina breytingar á viðverutíma barnanna. Milli áranna 2009 og 2010 fækkar um tæplega 1.100 börn sem dvelja í leikskólanum í 9 klukkustundir eða lengur á dag en á sama tíma fjölgar börnum sem dvelja í leikskóla í 8 klukkustundir á dag um tæplega 1.400. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar Börnum sem njóta sérstaks stuðnings fækkar milli ára Í desember 2010 nutu 1.232 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, 6,5% leikskólabarna. Þetta er fækkun um 130 börn frá fyrra ári, 9,5%. Eins og undanfarin ár eru fleiri drengir í þessum hópi. Árið 2010 nutu 834 drengir stuðnings, 68%, og 398 stúlkur, 32%. Hlutfall barna sem njóta stuðnings er mishátt eftir landssvæðum. Þannig njóta 3,9% leikskólabarna á Norðurlandi eystra stuðnings, meðan 11,2% austfirskra barna fá stuðning.

Prinsinn orðinn hertogi, barón og jarl

Vilhjálmur Bretaprins hefur verið gerður að hertoganum af Cambridge en amma hans drottningin sæmdi hann titlinum í morgun. Vilhjálmur fær einnig titlana jarlinn af Strathearn og Baróninn af Carrickfergus.

Obama heimsækir hamfarasvæðið í Alabama

Að minnsta kosti 297 hafa látist í óveðri sem gengið hefur yfir suðaustur-ríki Bandaríkjanna síðustu daga. Skýstrókar hafa tætt byggingar og önnur mannvirki í sig og er slóð eyðileggingarinnar sumstaðar gríðarleg.

Dikta spilar fyrir verkalýðinn

Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, fellur í ár á sunnudag. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika því fyrir kröfugöngu sem farin verður frá Laugaveginum í Reykjavík og niður á Ingólfstorg. Safnast verður saman klukkan 13.00 á sunnudag á horni Snorrabrautar og Laugavegar. Örræður verða fluttar á meðan gangan stendur yfir en útifundur hefst á Austurvelli klukkan 14.10. Dagskrá fundarins er sem hér segir: Ræða Signý Jóhannesdóttir, varaforseti ASÍ. Tónlist Hljómsveitin Dikta. Ræða Garðar Hilmarsson, 2. varaformaður BSRB. Tónlist Hljómsveitin Dikta. Ræða Heiða Karen Sæbergsdóttir, formaður Samband íslenskra framhaldsskólanema. Fundarstjóri Ingvar Vigur Halldórsson, stjórnarmaður í Eflingu.

Giffords fylgist með síðasta geimskoti Endeavor

Bandaríska geimskutlan Endeavor heldur af stað í sína síðustu geimferð í dag frá Flórída. Ferðinni er heitið í alþjóðlegu geimstöðina sem er á sporbaug um jörðu og tekur leiðangurinn fjórtán daga. Þegar skutlan snýr aftur verður henni komið fyrir á safni í Los Angeles.

Hvatt til mótmæla í Sýrlandi

Múslimska bræðralagið hvetur Sýrlendinga til að mótmæla stjórnvöldum að loknum föstudagsbænum í dag.

Manning brátt laus úr einangrun

Bradley Manning, bandaríski hermaðurinn sem situr í fangelsi fyrir að hafa lekið skjölum til WikiLeaks síðunnar losnar innan tíðar úr einangrun. Hann hefur síðustu mánuði verið í einangrunaklefa í herfangelsi í Virginíu en hefur nú verið fluttur í Fort Leavenworth í Kansas og þar mun hann umgangast aðra fanga.

Segir Kate já? - brúðkaupið í beinni á Vísi

Brúðkaup Vilhjálms Bretaprins og Kate Middleton fer fram í Westminster Abbey í London í dag. Gríðarlegur mannfjöldi er samankominn í borginni til þess að berja kóngafólkið augum enda ekki á hverjum degi sem verðandi krónprins Breta gengur í hnapphelduna. Útsendingin hefst klukkan sjö en sjálf athöfnin klukkan tíu. Hægt er að fylgjast með herlegheitunum í beinni útsendingu á Vísi og á Stöð 2 í opinni dagskrá.

SA funda um yfirlýsingu ríkisstjórnar

Stjórn Samtaka atvinnulífsins kemur saman í morgunsárið til að meta yfirlýsingu stjórnvalda sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnti forystumönnum samtakanna í gærkvöldi. Það gæti því ráðist í dag hvort endanlega slitnar upp úr kjaraviðræðum eða hvort fulltrúar SA og Alþýðusambandsins setjast aftur að samningaborðinu.

Kvótafrumvarpið lagt fram

Frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða verður lagt fyrir ríkisstjórn í dag eða strax eftir helgi í síðasta lagi. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi fá ekki að sjá frumvarpið fyrr en það hefur fengið umfjöllun í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Krakkarnir í skólanum kalla mig Royal

"Hann er núna aðalkarlinn í þorpinu sínu,“ segir Óðinn Páll Ríkharðsson, sautján ára nemandi í Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Þar vísar hann til afa síns, Davids Middleton, sem verður í dag viðstaddur brúðkaup frænku sinnar, Kate Middleton, og Vilhjálms Bretaprins í Westminster Abbey í London.

Ísraelsstjórn hafnar samstarfi við Hamas

Stjórnvöld í Ísrael munu ekki ræða við palestínsk stjórnvöld á meðan Hamas-samtökin eiga aðild að stjórn Palestínu, sagði Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra Ísraels, í gær. Forsvarsmenn stríðandi fylkinga Palestínumanna náðu á miðvikudag sögulegu samkomulagi um að sameina á ný svæði í Palestínu og hætta innbyrðis átökum Hamas og Fatah, sem kostað hafa hundruð manna lífið á síðustu árum.

Nota úrgang til að knýja þúsund bíla

Fyrir lok næsta árs er stefnt að opnun fyrsta metanorkuversins hér á landi sem nýtir lífrænan úrgang til framleiðslu á metangasi. Í dag verður skrifað undir viljayfirlýsingu Stjörnugríss og Metanorku hf., dótturfélags Íslenska gámafélagsins, um að kanna vænleika þess að nýta úrgang frá svínabúi Stjörnugríss að Melum í Melasveit til framleiðslu og sölu metans. Metanorkuverið að Melum á að verða fyrst í heimi til að nýta heitt vatn til að halda gerjunartanki við kjörhitastig.

Bæti kjör sjúklinga sem mest þurfa

Með fyrirhuguðum breytingum á lögum um sjúkratryggingar er stefnt að því að draga verulega úr lyfjakostnaði þeirra sjúklinga sem mest greiða. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynnti frumvarpið í fyrradag. Meginmarkmiðið er að auka jöfnuð sjúklinga og draga úr heildarútgjöldum þeirra sem mest þurfa á lyfjum að halda.

Guðjón kemur Geir til varnar

Guðjón Þórðarson knattspyrnuþjálfari segir að landsdómsréttarhöldin yfir Geir H. Haarde, mági sínum, séu grímulaus aðför kommúnista að Geir. Þetta segir Guðjón í ítarlegu samtali við Fréttatímann.

Hjálmar Jónsson endurkjörinn formaður Blaðamannafélagsins

Hjálmar Jónsson var endurkjörinn formaður Blaðamannafélags Íslands á aðalfundi félagsins sem haldinn var í kvöld. Hjálmar fékk 166 atkvæði af 198 greiddum atkvæðum. Ingimar Karl Helgason fékk 26 atkvæði. Alls greiddu 198 atkvæði en 545 voru á kjörskrá. Hjálmar Jónsson hefur starfað fyrir Blaðmannafélagið um árabil og gegndi formennsku undanfarið ár.

Segir hagræðingu ekki ástæðu bættrar niðurstöðu

Bættur rekstrarárangur á Álftanesi frá áætlun skýrist alfarið af hækkun á greiðslum frá jöfnunarsjóði sveitarfélaganna og vegna hækkunar á gengi krónunnar sem skilaði gengishagnaði vegna erlendra lána, segir Sigurður Magnússon, bæjarfulltrúi Álftanesslistans.

Kosið til vígslubiskups fyrri hluta júlímánaðar

Gert er ráð fyrir að kosning vígslubiskups í Skálholtsumdæmi geti farið fram að nýju fyrri hluta júlímánaðar. Ákveðið hefur verið að leggja fram nýja kjörskrá sem tekur gildi 1. maí 2011. Þetta kemur fram í tilkynningu frá kjörstjórn sem fundaði í dag. Í tilkynningunni kemur fram að 149 prestar eru á kjörskrá, en tveir þeirra presta sem voru á kjörskrá hinn 1. febrúar síðastliðinn hafa ekki lengur kosningarétt þar sem þeir hafa látið af störfum.

Rekstur Álftaness gekk betur en búist var við

Um átta milljóna króna tap var á rekstri Álftanesbæjar á síðasta rekstrarári. Áætlanir höfðu hins vegar gert ráð fyrir að tapið yrði 102 milljónir króna. Eigið fé sveitarfélagsins er neikvætt um 1249 milljónir króna.

Ríkisstjórnin sendi frá sér yfirlýsingu vegna kjaraviðræðna

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sendu í kvöld ríkissáttasemjara lokaútgáfu yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við mögulega kjarasamninga til þriggja ára, milli aðila á almennum vinnumarkaði.

Ríkisstjórnin efni tveggja ára gamlan sáttmála

Framkvæmdaáform stöðugleikasáttmálans fyrir tveimur árum hafa meira og minna brugðist og snúast kröfur Samtaka atvinnulífsins á hendur ríkisstjórninni nú í raun um að hún efni þau loforð sem þá voru gefin. Hvorki hefur tekist að draga úr atvinnuleysi né stöðva fólksflótta frá landinu.

Evrópusambandið segir samningaviðræður geta hafist

Evrópusambandið hefur lýst því yfir að það sé tilbúið að hefja eiginlegar samningaviðræður við Íslendinga og leggur til að viðræðurnar hefjist formlega 17. júní, á þjóðhátíðardegi Íslendinga.

Gatnamótin opnuð á ný

Búið er að opna gatnamótin Grensásvegur/Miklubraut. Þar varð árekstur tveggja bíla um hálffimmleytið í dag. Tveir voru fluttir á slysadeild til skoðunar og slökkviliðið þurfti að beita klippum til að ná bílstjóra út úr öðrum bílnum, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra hjá slökkviliðinu. Tildrög árekstursins eru ókunn.

Tryggvi vill fund í efnahags- og skattanefnd

Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður sjálfstæðismanna og meðlimur í efnahags- og skattanefnd hefur óskað eftir fundi í nefndinni hið fyrsta. Ástæðuna segir Tryggvi vera þá að sér hafi borist til eyrna að á fundi þingmannanefndar Evrópusambandsins og Alþingis þann 27. apríl síðastliðinn hafi átt að ræða bókun þar sem fram komi viðurkenning á að efnahagsleg aðlögun Íslands að Evrópusambandinu, sem samþykkt var í janúar síðastliðinn, með forgagnsröðun verkefna til ársins 2013, sé komin af stað.

Beita þurfti klippum til að ná bílstjóranum út

Árekstur varð á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar um klukkan hálf fimm í dag. Þrír voru í bílnum og slasaðist enginn þeirra alvarlega en slökkviliðið þurfti að beita klippum til að ná bílstjóra út úr öðrum bílnum, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra. Tildrög árekstursins eru ókunn. Gatnamótin eru lokuð um óákveðinn tíma.

Farþegar Iceland Express ferðast með Iron Maiden vélinni

Ein þeirra véla sem notuð verður á flugleiðum Iceland Express í sumar er kyrfilega merkt bresku þungarokkssveitinni Iron Maiden. Vélin hefur verið á ferð og flugi með hljómsveitina síðustu ár og gengur undir nafninu Ed Force One, í höfuðið á „lukkudýri“ dýri sveitarinnar, Eddie.

Össur hitti forsætisráðherra Kasmír

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti í gær fund í borginni Jammu með Omar Abdullah, forsætisráðherra Kasmír, og innanríkisráðherranum, Nasir Aslam Wani, um þróun á samstarfi íslenskra og indverskra fyrirtækja um nýtingu jarðhita. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að mikill áhugi sé á slíku samstarfi af hálfu yfirvalda í Kasmír en þar er að finna möguleika á að virkja jarðhita til raforkuframleiðslu. Samvinna er þegar hafin á milli indverskra og íslenskra fyrirtækja um verkefni í héraðinu.

Forsetinn tekur á móti sérstökum sendiherrum

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands mun í dag, fimmtudaginn 28. apríl, afhenda sjö einstaklingum tilnefningu þeirra sem sérstakir sendiherrar Sáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir fatlað fólk.

Sjá næstu 50 fréttir