Upp­gjörið: Víkingur-Flora Tallinn 1-1 | Svekkjandi jafn­tefli í fyrri leik ein­vígisins

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Valdimar Ingimundarson skoraði mark Víkings og var óheppinn að setja ekki annað. 
Valdimar Ingimundarson skoraði mark Víkings og var óheppinn að setja ekki annað.  vísir / pawel

Víkingur gerði 1-1 jafntefli á heimavelli gegn Flora Tallinn frá Eistlandi í undankeppni Sambandsdeildarinnar. Liðin mætast aftur eftir viku og sigurvegarinn einvígisins fer í umspil um sæti í riðlakeppninni í vetur.

Viktor Örlygur bar fyrirliðabandið í fjarveru Nikolaj Hansen.vísir / pawel

Víkingar byrjuðu leikinn vel, stýrðu spilinu og fengu að halda mikið í boltann. Ógnuðu mest upp hægri kantinn, komu með nokkrar góðar fyrirgjafir og sköpuðu hættu.

Þeir urðu svo fyrir því áfalli að fá vítaspyrnu á sig. Jón Guðni Fjóluson ætlaði að gefa til baka á markmanninn en sendingin var laus Mark Anders Lepik komst í boltann. Hann var sloppinn einn gegn markmanni, reyndi að sóla hann en var felldur og vítaspyrna dæmd.

Lepik steig svo sjálfur á punktinn, sendi Ingvar Jónsson til hægri en skoraði með vinstri fæti í vinstra hornið.

Gestirnir tóku völdin á vellinum um stund eftir markið en Víkingar voru fljótir að taka við sér aftur og sækja jöfnunarmarkið.

Davíð Örn Atlason gaf framherjunum Aroni Elís og Danijel Dejan Djuric þrjú frábær tækifæri til þess en skallar þeirra voru ekki nógu hnitmiðaðir.

Það gerðist loks á 40. mínútu að Aron Elís fékk boltann í lappir, sneri vel og tókst að troða honum inn á teiginn þar sem Valdimar Ingimundarson potaði honum framhjá markmanninum og jafnaði leikinn.

Seinni hálfleikur hófst með látum, Aron Elís og Danijel Dejan Djuric fengu sitt hvort færið, skot og skalli en það rataði ekki í netið.

Víkingur var við völd allan seinni hálfleik og skapaði fjölda marktækifæra. Þau komu úr ýmsum áttum, frá hægri og vinstri, skot í teignum og langskot utan hans. Það hættulegasta á 86. mínútu þegar Valdimar var næstum því búinn að pota boltanum inn eftir hlaup á nærstöngina en markmaðurinn sá við honum.

Gestirnir stóðu þetta mikla álag af sér, þéttir og sterkir í sínum varnaraðgerðum, töfðu og hægðu á leiknum eins og þeir gátu.

Lokaniðurstaða 1-1 og staðan í einvíginu jöfn fyrir seinni leikinn sem fer fram í Tallinn næsta miðvikudag.

Atvik leiksins

Ingvar Jónsson bjargaði Víkingum frá því að lenda 2-1 undir strax eftir að 1-1 jöfnunarmarkið var skorað. Laus fyrirgjöf sem lak inn á teiginn, Karl Friðleifur steinsofandi og beið bara eftir boltanum. Sergei Zenjov laumaði sér fram fyrir hann og skaut að marki en frábær varsla kom í veg fyrir annað mark.

Stjörnur og skúrkar

Davíð Örn Atlason með algjöra fyrirmyndar frammistöðu og frábærar fyrirgjafir.vísir / pawel
Gísli Gottskálk með snilldarleik á miðjunni, þvílík gæði sem hann býr yfir þó stundum vanti lokaafurðvísir / pawel
Vinnuhesturinn Valdimar Ingimundarson á hrós skilið líka, skoraði gott mark og var óheppinn að setja ekki annað.vísir / pawel



Ingvar Jónsson var bæði stjarna og skúrkur í kvöld, gaf vítið en varði síðan virkilega vel úr öðru færi. 



Ingvar Jónsson var bæði stjarna og skúrkur í kvöld, gaf vítið en varði síðan virkilega vel.vísir / pawel





Stemning og umgjörð

Umgjörðin til fyrirmyndar að vana í Víkinni. Heimavöllur hamingjunnar og hún var sannarlega sjáanleg í kvöld. Næstum því uppselt, ekki alveg, hefði verið gaman að sjá fulla stúku. Stemningin nokkuð góð en ekkert ærandi.

Stúkan var þétt setin en ekki smekk full. vísir / pawel
Stuðningsmenn með mestu lætin voru settir út í horn. Yfirleitt betur geymdir nær miðju. vísir / pawel

Dómarar [9]

Var fljótur að benda á punktinn og gefa gestunum víti. Vel gert þar sem það virtist ekki mikið í þessu fyrst um sinn en eftir endursýningu sést að þetta var hárréttur dómur.

Vel haldið utan um leikinn í kvöld að öllu leiti, leyfði Flora ekki að komast upp með miklar tafir og spjaldaði á réttum stundum.

Fátt fullkomið í þessum heimi, einhver smávægileg atvik og ákvarðanir sem voru ekki endilega réttar en toppeinkunn.

Hinn armenski Ashot Ghaltakhchyan hélt utan um flautuna. vísir / pawel

Viðtöl

„Hann varði mögulega vel eða þetta var bara lélegt hjá mér“

Valdimar segir Víkinga þurfa að halda áfram að gera það sem þeir gerðu í þessum leik.vísir / pawel

„Ég er alveg svekktur sko, fannst við betra liðið í þessum leik en þurfum bara að skora fleiri mörk. Við hefðum þurft að nýta mómentið meira, það var mikið opið hjá þeim hægra megin sérstaklega í fyrri hálfleik. Vantar bara gæði í krossana og klára færin,“ sagði Valdimar Ingimundarson, sem sýndi vissulega gæði og kláraði færi.

Valdimar skoraði eina mark leiksins og var óheppinn að setja ekki annað undir lokin þegar Helgi Guðjónsson laumaði boltanum í hlaup hans á nærstöngina.

„Helgi er góður í þessum boltum og ég vissi að ég þyrfti að koma mér þarna á milli en svo er þetta bara spurning um að ná snertingunni. Ég á eftir að sjá þetta aftur, hann varði mögulega vel eða þetta var bara lélegt hjá mér.“

Liðin halda út til Eistlands með stöðuna jafna fyrir leikinn næsta fimmtudag sem sker úr um hvort þeirra fer í umspil um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

„Við þurfum bara að halda áfram að gera það sem við gerðum í þessum leik, það er nóg pláss þarna sem við þurfum að keyra á og bara halda áfram,“ sagði Valdimar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira