Fótbolti

Nýr samningur sagður gera þá bestu að þeirri launa­hæstu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hefur spilað hreint út sagt frábærlega undanfarin misseri og fær nú loks veglega launahækkun.
Hefur spilað hreint út sagt frábærlega undanfarin misseri og fær nú loks veglega launahækkun. AP Photo/Michel Euler

Aitana Bonmatí, besta knattspyrnukona heims um þessar mundir, hefur framlengt samning sinn við Evrópu- og Spánarmeistara Barcelona. Samningurinn er sagður gera hana að launahæstu knattspyrnukonu heims.

Hin 26 ára gamla Bonmatí var bæði valin best af Alþjóðaknattspyrnusambandinu FIFA sem og hún vann Gullknöttinn á síðasta ári. Jafnframt var hún valin best á HM 2023 þar sem Spánn stóð uppi sem sigurvegari.

Ofan á það hefur hún verið í lykilhlutverki hjá Barcelona sem hefur orðið spænskur meistari undanfarin fjögur ár ásamt því að félagið hefur þrívegis orðið Evrópumeistari á þeim tíma.

Hún hefur verið hjá Barcelona allan sinn feril en hafði áður sagt í viðtali að „aldrei segja aldrei.“ Bonmatí var ekki endilega að íhuga að yfirgefa Katalóníu en bæði Chelsea og Lyon renndu hýru auga til miðjumannsins knáa í sumar.

Barcelona var ekki lengi að stökkva til og hefur nú framlengt samning hennar til ársins 2028. Þó það komi hvergi fram hversu mikla launahækkun Bonmatí fær með nýjum samning þá eru miðlar á borð við Forbes handvissir um að samningurinn geri heimsmeistarann þá launahæstu í heimi.

Barcelona hefur byrjað tímabilið á Spáni með tveimur sigrum í tveimur leikjum en er sem stendur á eftir Real Madríd á markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×