Fleiri fréttir

26 létust af slysförum á nýliðnu ári

Á nýliðnu ári létust 26 einstaklingar af slysförum hér á landi, sem er einum fleiri en árið 2009. Heldur dró úr banaslysum í umferðinni en 8 einstaklingar fórust á árinu á móti 17 árið á undan. Sex íslendingar létust erlendis á árinu.

Fyrsta barn ársins

Fyrsta barn ársins á höfuðborgarsvæðinu, fæddist á Landspítalanum í Reykjavík rúmlega hálf tvö í nótt. Það var drengur sem mældist um 12 merkur og heilsast honum og fjölskyldunni vel.

Lilja Móses: Flokkurinn ekki í fyrsta sæti

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist vera ánægð með fengið góða kosningu í annað sætið í vali á manni ársins á Rás 2 í gær. Hún segist á Facebook síðu sinni líta á kosninguna sem stuðning við þingmenn sem líta ekki á stefnumál sem skiptimynt og setja fólk í fyrsta sæti en ekki flokkinn.

Dópsali handtekinn

Fjögur fíkniefnamál komu upp á höfuborgarsvæðinu í nótt og í einu þeirra er grunur um sölu og dreifingu. Lögreglumenn lögðu hald á annan tug gramma af ætluðum fíkniefnum sem og peninga sem lögregla telur að sé ágóði af sölunni. Hinn meinti dópsali verður yfirheyrður síðar í dag þegar runnin verður af honum víman, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Unglingapartí í iðnaðarhúsnæði leyst upp

Laust fyrir klukkan tvö hafði lögregla afskipti af gleðskap í iðnaðarhúsnæði á Smiðjuvegi í Kópavogi en þar var kominn mikill hópur unglinga. Lögreglumenn rýmdu húsnæðið þar sem ekkert leyfi hafði fengist fyrir samkvæminu og húsnæðið er auk þess ekki hannað fyrir samkvæmi líkt og þett, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Á gjörgæslu eftir alvarlega líkamsárás

Karlmaður liggur á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að hafa orðið fyrir alvarlegri líkamsrás í miðborg Reykjavíkur í morgun. Maðurinn sem er fæddur árið 1976 lenti í átökum við annan karlmenn í Hafnarstræti um hálf átta leytið. Átökunum lauk með því að sparkað var í höfuð mannsins með þeim afleiðingum að hann liggur nú sem fyrr segir á gjörgæsludeild. Árásarmaðurinn er ófundinn en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur hún lýsingu á manninum undir höndum og vinnur nú að því að hafa uppi á honum.

Hálkublettir á Hellisheiði

Vegir á Suðurlandi eru víðast hvar auðir þó eru hálkublettir á Hellisheiði og í uppsveitum. Á Vesturlandi er snjóþekja í Staðarsveit og hálkublettir á Fróðárheiði og frá Ólafsvík að Grundarfirði. Hálka er á Holtavörðuheiði, að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Brenndist á hendi

Kona á þrítugsaldri var flutt á sjúkrahúsið á Ísafirði í nótt eftir að hún brenndist á hendi. Konan var töluvert kvalin, að sögn varðstjóra en hún hélt á handblysi þegar slysið varð. Þá var kveikt í ruslagámi en nóttin gekk að öðru leyti vel samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá lögreglunni á Ísafirði.

N-Kóreumenn beygðu reglurnar fyrir Beckham

Breska kvikmyndin Bend it like Becham, sem fjallar um knattspyrnudrauma breskrar stúlku af indverskum uppruna, er komin í sögubækurnar fyrir að verða fyrsta vestræna myndin sem sýnd hefur verið í sjónvarpi í Norður-Kóreu. Ákveðið var að sýna myndina til þess að minnast þess að tíu ár eru liðin frá því að Bretar og N-Kóreumenn tóku upp formleg milliríkjasamskipti.

Með kalkún í handfarangrinum

Tollverði á Cardiff flugvelli rak í rogastans á dögunum þegar þeir fundu tæplega fimm kílóa kalkún í handfarangri manns sem ætlaði að eyða jólunum á Spáni. Hann tók því heldur illa að þurfa að skilja jólamatinn eftir í Cardiff og hélt því fram að það væri ómögulegt að finna þokkalegan kalkún á Spáni. Tollvörðunum varð hinsvegar ekki haggað enda harðbannað að fara með ferskt kjöt á milli landa í handfarangri. Ekki fylgir sögunni hvað maðurinn lagði sér til munns á jóladag.

Grunsamlegur gluggagægir tekinn í Grafarvogi

Grunsamlegur gluggagægir var á ferð í Grafarvogi upp úr klukkan sjö í morgun. Lögreglan fékk tilkynningu um manninn upp úr klukkan hálfsjö og handtók hann. Á honum fannst varningur sem lögreglan telur að sé þýfi, en þó er ekki talið að hann hafi náð að brjótast inn í hús á svæðinu.

Jón Gnarr er maður ársins

Jón Gnarr borgarstjóri er maður ársins að mati fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis. Jón Gnarr var oddviti Besta flokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Besti flokkurinn var nýtt framboð sem hlaut sex menn kjörna af fimmtán. Jón Gnarr var svo kjörinn borgarstjóri á fyrsta borgarstjórnarfundi eftir kosningarnar.

Kveikt í brennum klukkan hálf níu

Kveikt verður í áramótabrennum í Reykjavík kl. 20:30 í kvöld. Á heimasíðu Reykjavíkurborgar eru borgarbúar hvattir til að fjölmenna á brennur og hafa gjarnan með sér stjörnuljós, en skilja skotelda eftir heima.

Fóru í 440 sjúkraflug á árinu

Fjöldi sjúkrafluga ársins 2010 er nú kominn í 440 og hafa 468 sjúklingar verið fluttir með flugvélum Mýflugs. Á síðasta ári voru flugin 396 talsins að því er fram kemur á heimasíðu Mýflugs.

Fengu verðlaun í litagetraun

Þessir hressu krakkar unnu til verðlauna í litagetraun Hjálparsveitar skáta í Kópavogi. Krakkarnir lituðu myndir í flugeldablað hjálparsveitarinnar. Þau voru svo leyst út með vinningunum í dag.

Íslendingar þreyttu árlegt áramótasund í Sönderborg

Árlegt áramótasund Íslendinga í Sönderborg var þreytt í dag. Sjórinn við strendur Sönderborgar, er eftir langvarandi frosthörkur í Danmörku afskaplega kaldur með tilheyrandi klakarönd í flæðarmálinu og hitastigi við 0 gráðurnar. „Það hjálpaði til að sól skein skært á sundmennina enda heiðskýrt og logn í Sönderborg í dag,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.

Tveir stjórnmálaleiðtogar gengu í hjónaband

Tveir leiðtogar íslenskra stjórnmálaflokka gengu í hjónaband á árinu sem nú er að líða undir lok. Um er að ræða Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formann Samfylkingarinnar, og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins.

Skýstrokkur í Arkansas - þrír látnir

Þrír létust þegar skýstrokkur gekk yfir smábæ í Arkansas í Bandaríkjunum í dag. Björgunarsveitarmenn vinna nú við að bjarga fólki sem festist í byggingum sem urðu fyrir storminum og er flugvöllur bæjarins lokaður vegna braks sem liggur um flugbrautina. Margir skýstrokkar hafa gengið yfir Oklahoma, Arkansas og Missouri í dag og hafa fjölmargar viðvaranir verið gefnar út.

Skuldabaggar fyrirtækja erfiðir efnahagslífinu

Of mög fyrirtæki eru með of mikla skuldabagga á bakinu, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. „Í mínum huga ekki nokkurt álitamál að það er það sem er að há okkur mest í því að koma hjólunum af stað,“ sagði Steingrímur J. í Kryddsíld Stöðvar 2 í dag. Þess vegna hafi verið gott þegar að það náðist samkomulag um það um daginn að klára skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. „Það mun koma hjólunum af stað,“ sagði Steingrímur.

Helsta verkefni ríkisstjórnarinnar að lifa af

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í Kryddsíld Stöðvar 2 voru ekki sammála Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni um að allt væri í himnalagi á ríkisstjórnarheimilinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins sagði að það væri ekki hægt að sitja uppi með ríkisstjórn sem líti á helsta verkefni sitt að lifa af. Hann neitaði því að formlegar viðræður hefðu farið fram um aðkomu framsóknarmanna að ríkisstjórninni en hann ítrekaði þá skoðun sína að allir flokkar ættu að koma að ríkisstjórnarborðinu.

Öryrki týndi 100 þúsund krónum

Hingað á fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis hringdi Ólafur Árnason öryrki, sem sagðist hafa orðið fyrir því óláni að tapa umslagi með 100 þúsund krónum í morgun. Ólafur veit ekki nákvæmlega hvar hann tapaði umslaginu en hann var staddur í Lágmúlanum í morgun og fór líka í N1 upp á Höfða.

Flugeldarnir á miðnætti í beinni á Vísi

Vísir verður með beina útsendingu frá myndavél á þaki Orkuveitunnar þegar nýja árið gengur í garð. Íslendingar taka flestum þjóðum fram í því að skjóta upp flugeldum um áramót og þeir sem ekki eiga kost á að virða fyrir sér hamaganginn með eigin augum geta séð herlegheitin á Vísi. Útsendingin hefst um klukkan hálf tólf og stendur til klukkan hálf eitt.

Ekki færri banaslys síðan 1968

Átta manns hafa látist í banaslysum í umferðinni á þessu ári en leita þarf aftur til ársins 1968 til að finna jafnfá banaslys á einu ári.

Varað við svifryksmengun í höfuðborginni

Styrkur svifryks er iðulega hár í Reykjavík fyrstu klukkustund nýs árs og oft nýársnóttina alla ef veður er stillt. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að 1. janúar á þessu ári sem er að líða hafi verið fyrsti „svifryksdagur ársins“.

Dró úr afbrotum á árinu á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið saman bráðabirgðatölur um fjölda helstu brota árið 2010. Þrátt fyrir að um bráðabirgatölur sé að ræða segir lögreglustjóri í tilkynningu að upplýsingarnar gefi þó góða innsýn í hvert stefnir.

Farið yfir árið í Kryddsíld Stöðvar 2

Hin árlega Kryddsíld Stöðvar 2 hefst klukkan 14 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 og hér á Vísi. Í Kryddsíldinni fara stjórnmálaleiðtogar landsins yfir árið sem er að líða og ræða það sem hæst bar auk þess sem rætt verður um árið sem senn rennur upp.

Jóhanna: Ísland fyrirmynd annarra þjóða

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segist hafa íhugað að neita að skila grein í Morgunblaðið, en formenn stjórnmálaflokkanna gera upp árið með skrifum í blaðið í dag. Hún segir rætin og lágkúruleg skrif ritstjóra blaðsins í garð sinn ekki eiga sér hliðstæðu í síðari tíma blaðasögu. Í grein sinni segir Jóhanna Íslendinga hafa nýtt síðustu tvö ár svo vel, að ýmsir tali um kraftaverk í því sambandi og nefnir nokkur dæmi um efnahagsbata landsins. Í stað þess að Ísland sé nefnt sem víti til varnaðar segir Jóhanna alþjóðasamfélagið horfa til Íslands sem fyrirmyndar vegna árangurs í endurreisnarstarfinu.

Ökumenn fari varlega við brennur

Umferðarstofa og lögreglan vilja minna ökumenn á að sýna sérstaka aðgæslu í nágrenni við brennurnar 17 sem veitt hefur verið leyfi fyrir á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. „Þetta á einkum við þar sem stofnbrautir og stærri vegir skilja að brennurnar og íbúðahverfi,“ segir í tilkynningu frá Umferðarstofu en dæmi um slíkt eru við Fylkisbrennuna við vesturenda Rauðavatns þar sem þarf að fara yfir Suðurlandsveginn frá nærliggjandi íbúðahverfum.

Eldur í járnblendinu í gærkvöldi

Eldur kom upp í járnblendisverksmiðjunni á Grundartanga í gærkvöldi um klukkan hálftíu. Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi var ekki um mikinn eld að ræða en erfiðlega gekk að slökkva hann. Glóð hljóp í duft í einu sílóa verskmiðjunnar og þurftu slökkviliðsmenn að moka glóðinni upp úr sílóinu til þess að slökkva hana. Slökkvistörfum lauk um klukkan hálfeitt í nótt. Eldsupptök eru ókunn.

Kveikt í sex blaðagámum í nótt

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var sex sinnum kallað út í nótt vegna elds í blaðagámum. Á þessum árstíma fjölgar brunum af þessu tagi mjög en yfirleitt eru unglingar á ferð. Að sögn vaktstjóra hjá slökkviliðinu var engin hætta af brununum í nótt en oft er þó erfitt að eiga við eld af þessu tagi enda eldsmaturinn mikill og erfitt að slökkva.

Skartgripaþjófar á ferð í Eyjum

Skartgriparán var framið í Vestmannaeyjum í nótt þegar rúða í skartgripaverslun var brotin og allt hreinsað úr sýningarglugganum. Óljóst er hve miklum verðmætum þjófarnir náðu en í glugganum voru skartgripir og úr. Tilkynnt var um verknaðinn klukkan hálfsex í morgun og eru lögreglumenn enn á vettvangi að rannsaka málið.

Opnunartímar á gamlársdag

Langflestir stórmarkaðir hafa opið fyrri part dags í dag, en lokað á morgun, nýársdag. Undantekningar þar á eru verslanir 10-11 og sólarhringsverslanir Hagkaupa, sem allar eru opnar til klukkan sex í kvöld, og opna ýmist í nótt eða á morgun á nýja árinu.

Fjárhundur festi höfuðið í vegg

Þýski fjárhundurinn Rebel, sem á íslensku útleggst „Uppreisnarseggur,“ varð fyrir því óláni að festa höfuðið í gati á múrvegg. Rebel er aðeins átta mánaða gamall var fastur í veggnum í hálfa klukkustund. The Telegraph greinir frá atvikiinu sem átti sér stað í Desert Hot Springs í Kaliforníuríki Bandaríkjanna á dögunum. Vinur eigenda Rebel hafði kallað eftir aðstoð og tókst að bjarga hundinum úr prísundinni. Hann hefur nú jafnað sig að fullu.

„We can do it“-konan látin

Fyrirmynd verkakonunnar á veggspjaldinu víðfræga með yfirskriftinni „We Can Do It!" lést á sunnudag, 86 ára að aldri. Konan hét Geraldine Hoff Doyle og hafði í fjóra áratugi ekki minnstu hugmynd um að hún hefði verið fyrirmyndin að veggspjaldinu.

Kannabis í flutningaskipinu El-Bravo við Reyðarfjörð

Skömmu fyrir hádegið í dag fór Lögreglan á Eskifirði í samvinnu við Tollgæsluna á Eskifirði og yfirhundaþjálfara RLS til leitar um borð í flutningaskipinu El-Bravo sem lá í Mjóeyrarhöfn við Reyðarfjörð. Við leit í skipinu lagði tollgæslan hald á óverulegt magn af vindlingum. Í tengslum við aðgerðina voru tveir karlmenn handteknir og fór lögreglan í húsleit á heimili þeirra í Fjarðabyggð . Hald var lagt á nokkur grömm af cannabis, neysluáhöld og cannabisplöntu, ásamt smygluðum vindlingum. Málin teljast upplýst og hefur mönnunum verið sleppt.

Hætt við að svipta bændur á Stórhóli fénu

Matvælastofnun hefur afturkallað beiðni um að bændur á Stórhóli í Djúpavogshreppi verði sviptir um 150 kindum eftir að þeir smöluðu kindunum af fjalli og komu í fjárhús á bóndabæ í grendinni.

Feðgarnir fundnir heilir á húfi

Feðgarnir sem Lögreglan á Selfossi hefur leitað að síðan í dag eru komnir fram. Leitarmenn frá björgunarsveit urðu varir við ferðir þeirra á Suðurlandsvegi. Lögregla þakkar öllum þeim sem aðstoð veittu við leitina. Ekkert amaði að feðgunum.

Sendiráðsmenn vildu nöfn fréttamanna á vettvangi

Hópur fólks kom saman og mótmælti við bandaríska sendiráðið í dag. Mótmælendur og sendiráðsmenn hafa lengi deilt um hvort mótmæla megi á stéttinni við sendiráðið. Að beiðni sendiráðsmanna safnaði lögreglan nöfnum fréttamanna og ljósmyndara sem fylgdust með mótmælunum.

Rændi skóm og faldi þá undir brjóstunum á sér

Brjóstgóð kona hélt að hún kæmist upp með að stela skópari með því að fela skóna undir brjóstunum á sér. Öryggismyndavélar hjá útsölumarkaðinum Beall´s Outlet í Flórídafylki Bandaríkjanna komu þó upp um þjófinn.

Sjá næstu 50 fréttir