Kvöldfréttir Stöðvar 2: Birna er besta vinkona sem ég hef eignast á ævinni

Enn hefur ekkert spurst til Birnu Brjánsdóttur, sem hvarf aðfaranótt laugardags. Vinkonur Birnu eru meðal viðmælanda í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Önnur þeirra var með Birnu á skemmtistaðnum Húrra nóttina sem hún hvarf. Hin vinnur með Birnu og hóf að hringja í vini og vandamenn þegar Birna skilaði sér ekki til vinnu í hádeginu á laugardag. Þær lýsa Birnu sem glaðlyndri, traustri vinkonu - sem leggur það ekki í vana sinn að láta ekki ná í sig. Hún hafi ekki verið í neinu rugli. Þá kemur Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í myndver. Rætt verður við fjölskyldu Birnu og björgunarsveitir sem leggja sig öll fram við að leita að Birnu. Síðast var vitað um ferðir Birnu um klukkan 25 mínútur yfir fimm aðfaranótt laugardags. Þá hafði hún, samkvæmt upptökum úr eftirlitsmyndavélum, gengið ein austur Austurstræti, upp Bankastræti og Laugaveg, en á móts við hús númer 31 hverfur hún sjónum. Hvarf Birnu er í algjörum forgangi hjá lögreglu og um klukkan ellefu í gærkvöldi voru björgunarsveitarmenn með sporhunda kallaðir út til að taka þátt í leitinni með lögreglu, ættingjum og vinum Birnu. Þá er vitað að sími hennar var notaður undir morgun í Hafnarfirði og er nokkurn veginn vitað á hvaða svæði það var. Unnið er úr öllum vísbendingum að sögn lögreglu. Birna er 170 cm á hæð, 70 kíló með sítt rauðleitt hár. Hún var klædd í svartar gallabuxur, gráa peysu, svartan flísjakka með hettu og í svörtum skóm þegar hún sást síðast. Þeir sem telja sig vita eitthvað um ferðir Birnu eru beðnir um að láta vita í síma 444-1000. Kvöldfréttir Stöðvar 2 hefjast á slaginu 18.30, að vanda.

2164
00:21

Vinsælt í flokknum Fréttir