Fótbolti

Gullboltinn ekki veittur í ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi með Gullboltann sem hann hefur fengið oftar en nokkur annar leikmaður.
Lionel Messi með Gullboltann sem hann hefur fengið oftar en nokkur annar leikmaður. getty/Alex Caparros

Gullboltinn verður ekki veittur í ár vegna kórónuveirufaraldursins. Hann hefur verið veittur besta leikmanni Evrópu síðan 1956.

Keppni lá lengi niðri vegna kórónuveirufaraldursins og tímabilið í sumum deildum, eins þeim frönsku og hollensku, kláraðist ekki.

Að sögn Pascel Ferre, ritstjóra France Football sem stendur fyrir valinu, var ekki hægt að líta á þetta ár eins og hvert annað ár vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.

„Okkur fannst við vera að bera saman perur og epli því sumir leikmenn væru búnir að spila 35-40 leiki en aðrir 20-25 leiki. Svo má ekki gleyma því að svona árum, þegar EM fer ekki fram, ræður Meistaradeild Evrópu miklu um hver fær þessi verðlaun. En hún fer fram með öðru sniði í ár,“ sagði Ferre.

Hann segir að það hafi ekki verið sanngjarnt að veita Gullboltann í ár. „Við vildum ekki að sigurvegarar þessa árs yrðu stjörnumerktir vegna sérstakra aðstæðna,“ sagði Ferre.

Lionel Messi og Megan Rapinoe fengu Gullboltann í fyrra. Messi hefur oftast fengið Gullboltann, eða sex sinnum. Byrjað var að veita Gullboltann í kvennaflokki 2018.

Klippa: Gullboltinn ekki veittur í ár



Fleiri fréttir

Sjá meira


×