Sport

Vill fresta æfingum og keppni sem krefjast snertinga til 13. ágúst

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stjarnan - Selfoss Pepsí Max deild kvenna Ksí knattspyrna
Stjarnan - Selfoss Pepsí Max deild kvenna Ksí knattspyrna

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands bað sóttvarnalækni um nánari útlistun varðandi íþróttastarf fullorðinna. Í svari sóttvarnalæknis kemur fram að best væri að gera hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi.

Þetta kemur fram á vef ÍSÍ nú í dag.

Svar sóttvarnalæknis til ÍSÍ

  1. Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
  2. Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
  3. Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

Fari svo að Knattspyrnusamband Íslands þurfi til að mynda að fresta öllum sínum leikjum til 13. ágúst - í fyrsta lagi - er ljóst að tímaramminn til að klára Íslandsmót karla og kvenna í knattspyrnu yrði frekar naumur.

Nú þegar þarf að fresta tveimur umferðum í Pepsi Max deild karla og einni í Pepsi Max deild kvenna þar sem ekki má leika fyrr en 5. ágúst næstkomandi. Við listann myndu bætast leikir sem hefur nú þegar verið frestað og átti að spila innan þessa tímaramma. Þá áttu 8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna að fara fram 11. og 12. ágúst. 

Hvort þetta myndi hafa áhrif á aðrar íþróttir verður að koma í ljós en Frjálsíþróttasamband Íslands stefnir á að bikarkeppni sambandsins fari fram 15. ágúst á Selfossi. Yfirlýsing frá Golfsambandi Íslands varðandi Íslandsmótið í golfi er einnig væntanleg.


Tengdar fréttir

Telur knattspyrnulið áfram geta æft

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, telur að æfingar knattspyrnuliða geti farið fram með sama hætti og undanfarnar vikur þrátt fyrir hertar aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×