Körfubolti

Bönnuðu Tryggva að spila með Íslandi en gáfu honum svo ekki sekúndu í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tryggvi Snær í leik með Valencia.
Tryggvi Snær í leik með Valencia. mynd/valencia
Íslenski landsliðsmaðurinn Tryggvi Snær Hlinason sat allan tímann á varamannabekknum hjá Valencia í kvöld þegar að liðið tapaði fyrir Brose Bamberg frá Þýskalandi í Meistaradeildinni í körfubolta á dramatískan hátt, 83-82.

Tryggvi hefur fengið örfáar mínútur hér og þar með spænsku meisturunum en hann var keyptur sem framtíðarmaður frá Þór á Akureyri og er ekki ætlað stórt hlutverk á þessu tímabili.

Honum er, aftur á móti, ætlað mun stærra hlutverk með íslenska landsliðinu sem mætir Tékklandi annað kvöld í fyrsta leik liðsins í undankeppni HM 2019. Leikurinn fer fram í Tékklandi.

Euroleague eða Meistaradeildin, sem er einkarekin deild, er í stríði við FIBA og virðir ekki nýja leikdaga í svokölluðu landsleikjavikum eins og tíðkast í fótbolta og handbolta. Leikdagar í Meistaradeildinni eru settir á dagskrá á nánast sama tíma og landsleikirnir.

Valencia vildi því ekki sleppa Tryggva til móts við íslenska landsliðið þrátt fyrir að þurfa í raun ekkert á honum að halda þessa dagana. Í staðinn fyrir að fá góðar mínútur með strákunum okkar þarf hann að dúsa á bekknum hjá spænska liðinu.

Vonir standa þó til að Tryggvi fái að koma til Íslands og spila seinni leikinn í þessari landsleikjaviku en það er leikur á móti Búlgaríu í Laugardalshöll á mánudaginn.


Tengdar fréttir

Tómas Þórður og Axel inn í landsliðshópinn

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, hefur gert tvær breytingar á landsliðshópnum fyrir leikina í undankeppni HM 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×