Fleiri fréttir

Skoðanakönnun um Icesave í kvöld

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis hefur látið framkvæma skoðanakönnun þar sem almenningur er spurður út í afstöðu sína til Icesave en nú styttist í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið sem Alþingi samþykkti en forseti synjaði undirskriftar. Könnunin var framkvæmd í gær og varpar hún ljósi á afstöðu almennings til þessa umdeilda máls. Greint verður frá niðurstöðunum í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan hálfsjö.

Bjarni Harðarson: Ég kann á Outlook

Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu, sendi póst á alla fjölmiðla í dag sem ætlaður var samstarfsmanni í ráðuneytinu. Efni póstsins var ábendingar vegna fréttatilkynningar sem til stóð að birta á vef ráðuneytisins. Þetta er í annað sinn sem Bjarni sendir póst á fjölmiðla óafvitandi. Í fyrra skiptið var um að ræða póst um Valgerði Sverrisdóttur sem átti að fara á aðstoðarmann hans og síðan úr óþekktu netfangi á fjölmiðla.

Töluvert magn af fölsuðum rakvélablöðum tekið

Tollgæslan lagði hald á töluvert magn af fölsuðum Gillette Fusion Power rakvélablöðum á dögunum. Um var að ræða hraðsendingu frá Hong Kong. Þetta er í fyrsta skipti sem tollgæslan hér á landi leggur hald á fölsuð rakvélablöð, en talið er líklegt að rakvélablöðin hafi verið ætluð til sölu hér á landi.

Varað við bílastæðavanda vegna körfuboltaleiks

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beinir þeim tilmælum til ökumanna sem eiga leið um vesturbæ Reykjavíkur að virða rétt gangandi vegfarenda og leggja ekki á gangstéttir eða á göngustígum. Þeir ökumenn sem leggja ólöglega mega búast við sektum.

Allt að 75 prósenta verðmunur á umfelgun

Nú nálgast vorið og þá fara ökumenn að huga að því að skipta yfir á sumardekkin. Þann 15. apríl eiga vetrardekkin að vera horfin undan bifreiðum landsmanna og af því tilefni hefur verðlagseftirlit ASÍ gert verðkönnun á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu hjá 36 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið. Könnunin var gerð á mánudaginn var og var þjónusta könnuð fyrir nokkrar tegundir fólksbíla og var allt að 75 prósenta verðmunur á milli verkstæða.

Hænur lokaðar í búri alla ævi

"Næstum öll egg sem eru framleidd eru á Íslandi koma undan hænum sem eru hafðar í búri alla ævi. Ég held að neytendur geri sér ekki grein fyrir hvernig er búið að dýrum hér á landi. Ég held að þeir haldi að ástandið sér betra en það er. Okkur langar til að vekja fólk til meðvitundar um ástandið og reyna að bæta það," segir Sif Traustadóttir, dýralæknir og félagi í nýjum samtökum um aukna velferð búfjár á Íslandi, Velbú. Unnið hefur verið að stofnun samtakanna síðustu mánuði og verður formlegur aðalfundur innan tíðar.

Vélarvana bátur skammt frá Óðinsboða

Björgunarskipið Húnabjörg frá Skagaströnd er nú á leiðinni að aðstoða vélarvana bát skammt frá Óðinsboða. Báturinn er 23. tonna stálbátur og er áætlað að Húnabjörg verði komin að honum um klukkan 15:30. Um töluvert langa siglingu er að ræða, um 50 sjómílur, og því reiknað með að bátarnir verði komnir aftur til Skagastrandar um og eftir miðnættið. Veður er þokkalegt á þessum slóðum.

Játar að hafa myrt mömmu Leifs

Tuttugu og fimm ára gamall karlmaður, sem grunaður er um að myrða mömmu hins íslenska Leifs Magnúsar Grétarssonar í bænum Mandal Noregi, hefur játað að bera ábyrgð á andláti hennar. Aftenposten segir að hann hafi játað við yfirheyrslur í morgun. Hann gengst hins vegar ekki við því að hafa framið morðið að yfirlögðu ráði.

Danskar herþotur í loftvarnaskothríð yfir Líbíu

Danskar F-16 herþotur sem taka þátt í aðgerðunum gegn hersveitum Gaddafís í Líbíu hafa nokkrum sinnum lent í skothríð frá loftvarnarbyssum stjórnarhermanna. Yfirmaður dönsku flughersveitarinnar sem staðsett er á Sikiley segir í samtali við Extrabladet að engin vél hafi enn orðið fyrir skoti. Hann segir að vélarnar fljúgi í svo mikilli hæð að litlar líkur séu á því að kúlur loftvarnabyssanna nái upp til þeirra.

Maður gelti á hund

Það þykir meiri frétt að maður bíti hund en að hundur bíti mann. Lögreglan í Ohio hefur handtekið mann og ákært hann fyrir að gelta á lögregluhund. Hundurinn var aftur í lögreglubíl og hafði verið skilinn þar eftir meðan lögregluþjónninn sinnti umferðarlagabroti.

Gaddafi skrifar Barack Obama

Hin opinbera fréttastofa Líbíu segir að Moammar Gaddafi hafi sent Barack Obama skilaboð. Þau eru sögð í tilefni af því að Bandaríkjamenn hafi dregið sig út úr því sem leiðtoginn kallar krossferð nýlenduríkja gegn Líbíu.

Lögreglan lýsir eftir Köru Dröfn

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir, Köru Dröfn Ásgeirsdóttur. Hún er fædd þann 16.09.1993. Hún er um 170, sentimetrar á hæð og 55 kílógrömm. Hún er með dökkt skolleitt hár. Ekki vitað um klæðnað. Lögreglan segir að ekki hafi heyrst frá Köru í um þrjár vikur.

Framkvæmdastjóri Becromal hættur störfum

Framkvæmdastjóri Becromal Iceland sagði upp störfum í gær og tók uppsögnin gildi samdægurs. Samningur framkvæmdastjórans var tímabundinn og hefði að óbreyttu lokið fyrir áramót. Í fréttatilkynningu frá stjórn félagsins kemur fram að auglýst verði eftir framkvæmdastjóra á næstu dögum og verður þá farið í formlegt ráðningarferli.

Pabbinn og frændinn yfirheyrðir í allan dag

Mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi, grunaðir um að hafa beitt 7 ára dreng grófu kynferðislegu ofbeldi, verða yfirheyrðir í allan dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er búist við að yfirheyrslur standi fram á kvöld. Mennirnir sem um ræðir eru faðir drengsins og frændi hans. Tekin verður ákvörðun um það í fyrramálið hvort farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir mönnunum. Varðhaldið rennur út á morgun, en ekki í dag eins og greint var frá í Fréttablaðinu. Faðir drengsins á að bak langan sakaferil og hefur meðal annars hlotið dóm fyrir árás á móður drengsins. Móðirin sagði í samtali við fréttastofu í gær að hún óttaðist mjög mennina tvo. Vegna þessa hefur hún flúið heimili sitt, ásamt drengnum, eiginmanni sínum og börnum þeirra. Meðal þess sem lögreglan rannsakar nú eru tölvugögn sem lagt var hald á við húsleit hjá mönnunum þann 31. mars, en grunur leikur á að mennirnir hafi myndað ofbeldið sem þeir beittu drenginn.

Lögreglan minnir á bingóbann um páskana

Skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að, eru bannaðar á ákveðnum tíma um bænadaga og páska. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur spil fara fram. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni sem minnir á umrætt bann. Tekið skal fram að listsýningar, tónleikar, leiksýningar og kvikmyndasýningar eru undanþegnar banni um helgidagafrið á föstudaginn langa en slíkir viðburðir mega þó ekki hefjast fyrr en klukkan 15:00 umræddan dag. Miðvikud. 20. apríl - Opið til kl. 03:00 eða 05:30 skv. leyfi Fimmtud. 21. apríl Skírdagur - Opið til miðnættis Föstud. 22. apríl Föstudagurinn langi - Lokað en má opna á miðnætti og vera opið til kl. 03:00 eða 05:30 Laugard. 23. apríl - Opið til kl. 03:00 Sunnud. 24. apríl Páskadagur - Lokað en má opna á miðnætti og vera opið til kl. 03:00 eða 05:30 Mánud. 25. apríl Annar í páskum - Opið til kl. 01:00

Japanskir sjómenn óttast um lifibrauð sitt

Sjómenn í Fukushima, sem margir hverjir misstu bæði heimili sitt og fiskibáta, óttast nú að geislamengun í hafinu muni eyðileggja lifibrauð þeirra. "Jafnvel þótt stjórnin segi að fiskurinn sé öruggur, þá mun fólk ekki vilja kaupa fisk frá Fukushima,“ segir Ichiro Yamagata, sjómaður sem bjó í næsta nágrenni við kjarnorkuverið í Fukushima. "Sennilega getum við ekki veitt fisk næstu árin.“

Dæmd fyrir að kýla snyrtifræðing

Rúmlega tvítug kona hefur verið dæmd í þriggja mánaða fangelsi og til greiðslu rúmlega 200 þúsunda króna í skaðabætur fyrir að kýla aðra konu í andlitið. Hin síðarnefnda hlaut glóðarauga og blóðnasir.

Karlmenn yfir fimmtugu vanmetnir

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, verður að öllum líkindum kosinn í stjórn norska Verkamannaflokksins á landsfundi flokksins um helgina. Dagblaðið Aftenposten segir að kjör hans yrði mjög umdeilt. Mörgum finnst rangt að kjósa karlmann yfir fimmtugu frá höfuðborginni inn í ráðið.

Hætt við fækkun öldrunarrýma á Barmahlíð

Hætt hefur verið við fækkun öldrunarrýma á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Barmahlíð í Reykhólahreppi. Þetta er hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til eflingar atvinnu og byggðar á Vestfjörðum sem kynntur var í gær. Þá var haldinn ríkisstjórnarfundur á Ísafirði og samþykkt 16 verkefni sem snúa að eflingu fjórðungsins. Velferðarráðuneytið tilkynnti hjúkrunarforstjóra Barmahlíðar í febrúar á þessu ári að heimilinu væri gert að fækka öldrunarrýmum úr 14 í 12 á árinu. Hreppsnefnd Reykhólahrepps sagði rekstrargrundvöll heimilisins þar með brostinn. Tvö rými á heimilinu samsvara 14,4 milljóna króna framlagi frá ríkinu, eða um 15% af heildarframlagi til heimilisins. Vegna þessa taldi hreppsnefndin að ekki væri lengur forsenda til að reka heimilið. Nú hefur ríkisstjórnin kallað þennan niðurskurð til baka og mun heimilið starfa áfram í óbreyttri mynd.

Raðmorðingi í New York-ríki

Lík átta kvenna hafa nú fundist með stuttu millibili á strönd við New York. Lögreglan á svæðinu telur nú að um raðmorðingja sé að ræða. Frá þessu er greint á fréttavef BBC.

Stjórnlagaráð sett í dag - almenningur velkominn

Stjórnlagaráð verður sett í dag klukkan tvö. Á setningunni fá fulltrúar í stjórnlagaráði afhenta skýrslu stjórnlaganefndar, sem Guðrún Pétursdóttir hefur stýrt, þar sem koma fram tillögur nefndarinnar um breytingar á stjórnarskránni. Stjórnlaganefnd sem kjörin var af Alþingi 16. júní í fyrra hefur þar með lokið störfum. Að setningu lokinni verður efni skýrslunnar kynnt fjölmiðlum. Setningin er opin almenningu á meðan húsrúm leyfir, en aðsetur stjórnlagaráðs eru í Ofanleiti 2 í Reykjavík. Í Stjórnlagaráði sitja 25 fulltrúar og er þeim ætlað að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar, undirbúa frumvarp að endurbættri stjórnarskrá og hafa til hliðsjónar við þá vinnu niðurstöður Þjóðfundar sem haldinn var í fyrra.

Um 5% kjósenda eru með erlent lögheimili

Kjósendur með lögheimili erlendis í kosningunum um Icesave á laugardaginn eru 11.608 eða 5,0% heildarinnar og hefur þeim fjölgað um 1.667 frá síðustu alþingiskosningum eða um 16,8%.

Önnur skip fá ekki að sigla til Landeyjahafnar

Ekkert virðist ætla að verða úr því að önnur farþegaskip eða farþegabátar en Herjólfur, fái að sigla á milli lands og Eyja, eins og bæjarstjóri Vestmannaeyja fór fram á við innanríkisráðherra fyrr í vikunni.

Lögreglan gómaði bensínþjófa á Akureyri

Lögreglumenn á eftirlitsferð um Akureyri í nótt, sáu til tveggja ungra manna og ætluðu að hafa tal af þeim. Þeir tóku hinsvegar til fótanna, en annar náðist, og auk þess tveir félagar þeirra í bíl þar skammt frá.

Berlusconi sleppur við málaferli í Mílanó

Meirihluti í neðri deild ítalska þingsins hefur samþykkt tillögu sem leiðir til þess að Silvio Berlusconi forsætisráðherra landsins sleppur við málaferli um kynferðisafbrot fyrir dómstóli í Mílanó.

Verulega fjölgar á vanskilaskrá

Einstaklingum á vanskilaskrá Creditinfo hefur fjölgað um 305 á mánuði að meðaltali síðatliðna sex mánuði, samkvæmt tölum félagsins.

Vilja grafa Monu Lisu upp

Ítalskir sérfræðingar undir forystu sagnfræðingsins Silvano Vinceti hafa tilkynnt að þeir hyggist grafa upp lík kaupmannsfrúarinnar Lisu Gherardiní sem talin er hafa verið fyrirmyndin að hinu þekkta verki Mona Lisa sem Leonardo da Vinci málaði á 16. öld.

Aftöku frestað í annað sinn í Texas

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur frestað í annað sinn aftökunni á hinum 47 ára gamla Clive Foster í Texas. Hún átti að fara fram í nótt.

Sat inni fyrir árás á móðurina og afann

Karlmaður um fimmtugt sem situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa beitt son sinn á áttunda ári grófri kynferðislegri misnotkun, á að baki langan sakaferil og hefur meðal annars verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot. Frændi föðurins sætir einnig gæsluvarðhaldi, grunaður um sömu brot.

Tíu kynferðisbrotamál á borð kirkjunnar 2010

Fagráð um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar fékk tíu ný mál inn á borð til sín á síðasta ári. Tveimur hefur verið vikið úr starfi, en hvorugur starfaði sem prestur. Fagráðið lítur á öll tilvik sem alvarleg brot. Sum málanna áttu sér stað þegar þolendur voru börn að aldri og eru fyrnd að lögum. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu fagráðs þjóðkirkjunnar.

Díoxín í ryki talið valda endurmengun

Mengandi efni frá sorpbrennslunni Funa hafa safnast upp og sérfræðingar óttast endurmengun af völdum fjúkandi ryks. Díoxín er líklegt til að finnast í jarðvegi næstu áratugina. Rannsaka þarf jarðveginn og villt dýr af nákvæmni.

Gbagbo hrökklast frá völdum

Laurent Gbagbo hafði hreiðrað um sig í kjallarabyrgi ásamt fjölskyldu sinni í gær, umkringdur herliði andstæðinga sinna, en neitaði fram á síðustu stundu að semja um brotthvarf sitt frá völdum. Stjórnarherinn var hættur að berjast gegn liði uppreisnarmanna en leiðtogi þeirra lagði áherslu á að hann kæmist frá átökunum lifandi.

Harma sölu sögulegra skákminja

Skáksamband Íslands harmar að munir úr einvígi Bobby Fishers og Boris Spasskí árið 1972 hafi verið seldir úr landi. Sambandið vill skrá hvar aðrir munir úr einvíginu eru niðurkomnir og að þeim sé safnað á einn stað.

Sérleyfi Herjólfs verði aflétt

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur ritað innanríkisráðherra og siglingamálastjóra bréf þar sem hann óskar eftir því að sérleyfi Herjólfs til siglinga í Landeyjahöfn verði þegar aflétt og öðrum bátum og skipum með leyfi til farþegaflutninga heimilað að nýta Landeyjahöfn.

Vilja kvóta til minnst 35 ára með rétti til að framlengja

Samtök atvinnulífsins hafa kynnt ríkisstjórninni útspil sem þau kalla "tillögu til sátta um efnislega útfærslu samningaleiðar í sjávarútvegi.“ "Tillagan felur í sér grundvallarbreytingar á stjórn fiskveiða frá því sem nú er og komið er verulega til móts við sjónarmið stjórnarflokkanna í þessum efnum,“ segir í yfirlýsingu frá SA.

Fylgja ekki sáttmála SÞ

Íslensk stjórnvöld standa ekki við fjölmörg atriði í samningi um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Í nýrri skuggaskýrslu Barnaheilla – Save the Children, Mannréttindaskrifstofu Íslands og UNICEF – Barnahjálpar SÞ á Íslandi, er farið yfir stöðu barna á Íslandi í samræmi við fjölmörg ákvæði Barnasáttmálans.

Fimm milljarðar til Vestfjarða

Á fundi sínum á Ísafirði í gær samþykkti ríkisstjórnin sextán verkefni sem eiga að efla byggð og atvinnusköpun í landshlutanum. Samtals á að leggja um 5,4 milljarða króna í þessi verkefni, en af þeirri fjárhæð eru 1,5 milljarðar nýtt fé. Í tilkynningu frá stjórninni hafa þessi verkefni verið undirbúin í samvinnu allra ráðuneyta og í samráði við heimamenn.

Icesave 1. hluti: Svo einfalt í fyrstu

Icesave, sem byrjaði sem saklaus leið Landsbankans til að fjármagna sig, snerist við hrunið upp í andhverfu sína og er eitt flóknasta og erfiðasta viðfangsefni sem þjóðin hefur tekist á við.

Sjá næstu 50 fréttir