Fleiri fréttir

Greenpeace í aðgerðum á Grænlandi

Meðlimir í Greenpeace samtökunum hafa farið um borð í olíuborpall undan ströndum Grænlands og ætla að reyna að koma í veg fyrir að pallurinn geti borað eftir olíu. Pallurinn sem heitir Leifur Eiríksson er í eigu Cairn Energy og er um 100 mílur undan strönd Grænlands. Cairn er eina fyrirtækið sem ætlar að leita að olíu á svæðinu en talsmenn Greenpeace segjast óttast að finni þeir olíu muni hálfgert gullæði brjótast út sem hefði skelfilegar afleiðingar fyrir umhverfið. Talsmenn heimastjórnarinnar á Grænlandi segja hinsvegar að aðgerðir Greenpeace manna séu ólöglegar og að mótmælendurnir verði fjarlægðir af lögreglu haldi þeir aðgerðum sínum áfram.

Ríkið semur við SFR

Skrifað var undir nýjan kjarasamning rétt fyrir klukkan eitt í nótt á milli ríkisins og SFR. Samningurinn er á svipuðum nótum og sá sem gerður var á almennum markaði fyrr í sumar og gildir hann frá 1. maí og fram í mars 2014, að því er fram kemur á heimasíðu SFR. Samningurinn gerir ráð fyrir 50.000 króna eingreiðslu ef hann verður samþykktur, sem og álagsgreiðslum upp á 25.000 krónur á yfirstandandi ári. Einnig er gert ráð fyrir hækkunum á orlofs- og desemberuppbót.

Kvótafrumvörpin á dagskrá þingsins

Bæði sjávarútvegsfrumvörp ríkisstjórnarinnar verða á dagskrá Alþingis í dag. fyrst verður minna frumvarpið svonefnda á dagskrá, sem meðal annars nær til hækkunar á veiðileyfagjöldum, en síðan á að taka frumvarpið um heildarendurskoðun fyrir.

Maltverjar vilja lögleiða skilnaði

Íbúar Möltu sögðu í gær já við því í þjóðaratkvæðagreiðslu að leyfa skilnaði. Kosningin er óbindandi fyrir ríkisstjórnina en um 75 prósent þáttaka var í atkvæðagreiðslunni. Hingað til hefur Malta, sem er kaþólskt ríki, verið eina landið í Evrópusambandinu þar sem hjónaskilnaður er bannaður með lögum.

Þjóðverjar ætla að loka öllum kjarnorkuverum sínum

Ríkisstjónin í Þýskalandi hefur ákveðið að slökkva á öllum kjarnorkuverum sínum á næsta áratug. Þetta var ákveðið á fundi stjórnarinnar sem hófst í gær og stóð langt fram á nótt. Mikil umræða hefur verið í landinu um kjarnorkumál í kjölfar slyssins í Fukushima kjarnorkuverinu í Japan og mótmæltu þúsundir manna kjarnorkunni víða um land.

Strandveiðibátar ná ekki upp í kvóta

Ljóst er að strandveiðibátar á svæðinu frá Ströndum að Greinivík við Eyjafjörð munu hvergi nærri ná að veiða maí kvótann því hátt í hundarð tonn eru eftir af kvótanum. Afgangurinn flyst þá yfir á júníkvótann. Fá tonn eru eftir á svæðinu frá Grenivík til Hafnar í Hornafirði og veiðast þau væntanlega í dag.

NATO biður Afgana afsökunar á drápum á óbreyttum borgurum

Fjölþjóðalið NATO í Afganistan hefur beðist afsökunar á loftárás sem gerð var suðvesturhluta landsins á laugardag en að minnsta kosti fjórtán óbreyttir borgarar létu þar lífið. Æðstu hershöfðingjar bandalagsins segja í yfirlýsingu að ávallt sé reynt að koma í veg fyrir mannfall á meðal óbreyttra og að slík tilvik séu ætíð rannsökuð til hlítar.

Mótmæltu handtöku Mladics

Ratko Mladic, fyrrverandi yfirherforingi í her Bosníu-Serba, ætlar að áfrýja framsalskröfu á hendur sér en hann hefur verið eftirlýstur af Stríðsglæpadómstólnum í Haag síðustu ár. Mladic, sem var handtekinn á dögunum í Serbíu, er sakaður um þjóðarmorð í Bosníustríðinu árið 1995, hann er meðal annars sagður hafa fyrirskipað morð á tæplega átta þúsund múslimskum mönnum og drengjum í bænum Srebrenica. Þúsundir serbneskra þjóðernissinna mótmæltu handtöku Mladics í Belgrad í gær og voru um 100 handteknir eftir átök við lögreglu.

Mælt fyrir smærra kvótafrumvarpinu

Bæði kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar hafa verið sett á dagskrá Alþingis. Það sama gildir um kvótafrumvarp Hreyfingarinnar. Þetta varð niðurstaðan af fundi forseta Alþingis með formönnum þingflokka síðdegis í gær.

Kveikti í nýlegum Audi

Gerð var tilraun til að kveikja í nýlegum Audi fólksbíl, sem stóð við Tangarhöfða í Reykjavík í nótt. Vitni tilkynnti um reyk úr bílnum, en þegar lögregla og slökkvilið komu á vettvang var hann að mestu út dauður, en greinileg ummerki voru um að bensíni hafði verið hellt inn um aðra aftur hurðina og eldur borinn að.

Laða ferðamenn að fuglaskoðun

Náttúrustofa Vesturlands og Háskólasetur Snæfellsness, með styrk frá Nýsköpunarsjóði, munu standa fyrir öflun upplýsinga um fuglalíf á Snæfellsnesi og í Dölum. Verkefnið er til að styðja við ferðaþjónustuna og laða að áhugafólk um fuglaskoðun.

Æðarvarp varð illa úti í hreti

Æðarvarp á Norðurlandi virðist hafa orðið mjög illa úti í vorhretinu sem þar gekk yfir á dögunum. Siglo.is segir frá því að allt að 60 prósent af hreiðrum í Siglufirði hafi verið yfirgefin.

Meiri peningar í sautjánda júní

Framlag borgarsjóðs til hátíðarhalda á sautjánda júní hækkar úr tíu milljónum í þrettán milljónir króna samkvæmt ákvörðun borgarráðs. Framlagið lækkaði úr 25 milljónum króna í tíu milljónir eftir hrunið.

Óæskileg hegðun nemenda er helmingi minni en áður

Jákvæð samskipti kennara og nemenda í þremur skólum í Reykjanesbæ; Njarðvíkurskóla, Myllubakkaskóla og Holtaskóla, hafa aukist til muna. Óæskileg hegðun nemenda hefur snarminnkað. Þetta eru niðurstöður nýrrar umfangsmikillar rannsóknar á innleiðingu PBS (Positive Behavior Support) í skólana þrjá og árangur sem af því hlaust.

Vatnsberinn verður fluttur í Bankastræti

Höggmynd Ásmundar Sveinssonar, Vatnsberinn, verður flutt úr Öskjuhlíð á sunnanvert horn Bankastrætis og Lækjargötu. Borgarráð ákvað þetta á fimmtudag. Upphafleg tillaga gerði ráð fyrir að styttan yrði á miðju Austurstræti við gatnamótin að Lækjargötu.

Skorað á ESB að endurskoða sölubann afurða

Vestnorræna ráðið skorar á Evrópusambandið að endurskoða bann sitt við innflutningi selafurða til sambandsins. Bannið hefur nú þegar haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir fjölskyldur veiðimanna og smærri byggðir veiðimanna á Grænlandi.

Kefluðu mann og rændu hann

Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í átján mánaða fangelsi, meðal annars fyrir rán og frelsissviptingu. Þá var hann dæmdur til að greiða fórnarlambinu 450 þúsund krónur í miskabætur.

Íbúðir skili arði og efli samfélag

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs vill að Íbúðalánasjóður ræði við aðila á Austurlandi um stofnun eignarhaldsfélags utan um íbúðir sem sjóðurinn á þar í fjórðungnum og seljast ekki.

Hjóluðu 831.000 kílómetra í átaki

Mun fleiri tóku þátt í átakinu Hjólað í vinnuna nú en í fyrra. Rúmlega ellefu þúsund manns tóku þátt frá 694 vinnustöðum í 1.628 liðum sem skráð voru til leiks.

Skemmtigarður verið sleginn af

Bæjarráð Blönduósbæjar hefur falið bæjarstjóra að segja upp samningi við einkahlutafélagið 2 Áttir um afnot á landi til uppbyggingar á fjölskyldu- og skemmtigarði á Blönduósi.

Háskóli unga fólksins af stað

Óvenju fjölbreytt starfsemi verður í Háskóla unga fólksins, sem verður haldinn 6. til 10. júní næstkomandi, vegna 100 ára afmælis Háskóla Íslands. Búið er að opna fyrir umsóknir.

Ungmenni ánægð með íslenska skóla

Nær öll íslensk ungmenni, eða 90 prósent, telja að háskólanám hér á landi sé góður kostur. Af ungmennum í 31 Evrópulandi er hlutfallið einungis hærra hjá þeim dönsku sem telja að háskólanám þar í landi sé aðlaðandi kostur, eða 91 prósent. Þetta kemur fram í nýrri könnun, Flash Eurobarometer on Youth, sem gerð var fyrir Evrópusambandið (ESB) í janúar síðastliðnum.

Banvænu agúrkurnar ekki fluttar til Íslands

Lífrænar agúrkur hafa verið afturkallaðar úr verslunum í Austurríki og í Tékklandi af ótta við útbreiðslu bakteríu sem hefur banað að minnsta kosti níu manns og valdið veikindum hundraða manna víðs vegar um Evrópu.

NATÓ rannsakar hvers vegna loftárásin varð tólf börnum að bana

NATÓ rannsakar nú hvers vegna lofttárás varð tólf börnum og tveimur konum að bana í gærkvöldi. Loftárásin var gerð í suðvestur Afganistan í Helmands-héraði en ástæða hennar er sú að talíbanar réðust á bandaríska herstöð á svæðinu á dögunum. Loftskeytið lenti ekki á aðstöðu uppreisnarmannanna heldur tveimur heimilum almennra borgara.

Flest efnahagsbrotamál í ákærumeðferð á árinu 2013

Búast má við að stærstur hluti mála sem eru á borði Sérstaks saksóknara verði í ákærumeðferð á árinu 2013, segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Ákærur verði þó gefnar út jafnóðum og rannsókn mála ljúki.

Ekki forsendur fyrir nýjum flokki með Evrópusinnuðum sjálfstæðismönnum

Þorsteinn Pálsson segir ekki forsendur fyrir að breikka grunn Samfylkingarinnar í nýjum flokki með Evrópusinnuðum sjálfstæðis- og framsóknarmönnum, eins og Jóhanna Sigurðardóttir bauð upp á í ræðu sinni á flokksstjórnarfundinum í dag. Jóhanna hafi fært Samfylkinguna of langt til vinstri til að svo megi verða.

Boðar fjárfestingu upp á hundruð milljarða í orkufrekum iðnaði

Forsætisráðherra boðar fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og tengdum virkjanaframkvæmdum upp á þrjú til fjögur hundruð milljarða á næstu þremur til fimm árum. Þá vill hún þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á kvótakerfinu strax næsta haust.

Fékk að leiða Pedro Rodríguez inn á Wembley

„Skemmtilegast af öllu var að fá að ganga út á grasið," segir Steinar Óli Sigfússon sjö ára gamall piltur sem fékk að leiða Pedro Rodríguez leikmann Barcelona út á völlinn í úrslitaviðureign Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gær.

Strangar reglur fyrir lögreglumenn í Víetnam

Víetnamskir lögreglumenn mega ekki vera með svört sólgleraugu, spjalla saman, reykja eða hafa hendur í vösum á meðan þeir sinna skyldustörfum á opinberum stöðum.

Mladic segist ekki hafa fyrirskipað fjöldamorðin

Fyrrverandi hershöfðinginn Ratkó Mladic segist ekki hafa fyrirskipað fjöldamorð á mörg þúsundum múslima í Srebrenica árið 1995. Þetta hafa fjölmiðlar eftir Darko syni hans sem spjallaði við fjölmiðla eftir að hann heimsótti föður sinn í Serbíu í dag.

Nóg að þjóðin hafi þurft að greiða fyrir síðasta gleðskap þessa fólks

"Þó enn sé víða við erfiðleika að glíma og enn sé óvissa varðandi ýmis mál hefur ekki verið bjartara yfir íslensku efnahagslífi um langa hríð,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar á flokkstjórnarfundi flokksins í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ í dag.

Samfylkingin ræðir umbótatillögur

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar ávarpaði flokksstjórnarfund flokksins klukkan ellefu í morgun og fór þar yfir stöðu flokksins og helstu viðfangsefni ríkisstjórnarinnar.

Verðmætar myndir

Bandarískur áhugaljósmyndari datt heldur betur í lukkupottinn á dögunum þegar hann var að gramsa í dóti á bílskúrssölu og fann þar gamlar ljósmyndafilmur. Hann greiddi einungis tvöhundruð og þrjátíu íslenskar krónur fyrir fundinn en varð ljóst við framköllun að hann var mun verðmætari. Myndirnar voru nefnilega af leikkonunni Marilyn Monroe og teknar áður en hún komst til frægðar. Fréttastofa CNN hefur fengið leyfi til að birta þær næstkomandi þriðjudag, einum degi fyrir afmælisdag leikkonunnar, en Monroe hefði orðið áttatíu og fimm ára þann fyrsta júní.

Brúnka getur verið lífshættuleg

Katrín Vilhelmsdóttir greindist fyrst með sortuæxli á bakinu fyrir sex og hálfu ári. Fyrir rúmu ári uppgötvaðist fyrir tilviljun að hún var með sortuæxli innvortis sem hefur breiðst út.

Þjóðin leyfir hjónum að skilja

Samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu á Möltu í gær að setja lög sem leyfa hjónaskilnaði. Malta er nú ekki lengur eina Evrópuríkið þar sem ólöglegt er fyrir hjón að skilja. Það er nú í höndum þingsins að samþykkja lögin sem 72 prósent þjóðarinnar samþykktu í gær.

Brotist inn í tölvukerfi söluaðila bandaríska hersins

Lockheed Martin, sem selur bandaríska hernum vopn og flugvélar og er umsýslu- og þjónustuaðili upplýsingakerfa bandaríska ríkisins, varð fyrir alvarlegri tölvuárás hinn 21. maí síðastliðinn. Fyrirtækið, sem framleiðir meðal annars F16 orrustuþotur sem Bandaríkjaher notar, greindi frá þessu í gærkvöldi en starfsmenn þess segja að tekist hafi að fyrirbyggja að viðkvæmar persónuupplýsingar kæmust í hendur óprúttinna aðila.

Þjónustumiðstöð á Kirkjubæjarklaustri

Þjónustumiðstöð almannavarna á Kirkjubæjarklaustri tók til starfa s.l. föstudag. Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að meginverkefni hennar verði að sinna eftirmálum eldgossins í Grímsvötnum sem snúa að íbúum, sveitarfélögum og uppbyggingarstarfi.

Tíu látist í Þýskalandi vegna sýkingar í grænmeti

Að minnsta kosti tíu hafa látist af völdum E.coli sýkingar í Þýskalandi og tvö hundruð og sjötíu hafa smitast. Sóttvarnarstofnun Evrópu telur að útbreiðsla sýkingarinnar sé ein sú stærsta sem komið hefur upp. Þessi gerð E.coli ræðst einna helst á nýru og miðtaugakerfi þeirra sem af henni smitast.

Tólf teknir ölvaðir undir stýri í Reykjavík

Nóttin var afar róleg hjá lögregluembættum um allt land. Tólf voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu og fangageymslur voru nær tómar, en þar gisti einn vegna mikillar ölvunar. Skemmtanahald í miðborginni gekk nánast vandræðalaust fyrir, sig sem var lögreglunni gleðiefni, þar sem óvenjumikil ölvun var þar í fyrrinótt. Þá var lítið að gera hjá slökkviliðinu í sjúkraflutningum.

Tvær konur og tólf börn fórust í árás NATÓ

Fjórtán borgarar féllu í loftárás NATO í suðvestur Afganistan í Helmands héraði í gær. Loftárásin varð eftir að talíbanar réðust á bandaríska herstöð á svæðinu. Árás NATO var beint að uppreisnarmönnum en lenti á tveimur heimilium almennra borgara þar sem tvær konur og tólf börn féllu, sum undir tveggja ára aldri. Málið er nú til rannsóknar hjá Nato og afgönskum hersveitum.

Sjá næstu 50 fréttir